Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:26:10 (5900)

2002-03-11 16:26:10# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Því miður verður að viðurkennast að textar sem héðan ganga eru stundum umdeilanlega skýrir og maður gæti jafnvel freistast til að halda að mönnum miði stundum heldur afturábak en áfram í því að kunna að orða hugsun sína skýrt. Ef borin er saman eldri löggjöf og yngri er gjarnan einn sláandi munur þar á og það er að í eldri textum var tilhneigingin að hafa textann knappan en skýran. Það skilur auðvitað oft eftir ákveðin túlkunaratriði sem ekki er þá fjallað um en það sem sagt er í lögunum er mjög skýrt. Ég bendi mönnum t.d. á að lesa lagabálka sem enn eru í gildi frá því upp úr aldamótunum næstsíðustu þar sem lög voru gjarnan stutt, lagagreinar stuttar, en mjög skýrt það sem þar var sagt. Það er kannski að breyttu breytanda gott fordæmi til þess að reyna að hafa til eftirbreytni.

Nú er uppi sú staða að mér sýnist nauðsynlegt að hv. þingnefnd fari rækilega yfir þá þætti sem hér hafa orðið að umtalsefni og skýri jafnvel enn betur og enn frekar í grg. eða nál. en ráðið verður af tillögugreininni sjálfri og síðasta málslið 1. gr. Nákvæmlega hvaða áhrifum er þessari breytingu á stjórnsýslulögunum ætlað að ná fram, þessari sem við höfum verið hér að ræða? Hugleiðingar af því tagi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var með áðan geta alveg stofnast ef menn fara út á þá braut að túlka að verið sé að hrófla við orsakasamhengi eða ábyrgðartengslum ráðherra og undirmanna. En svo er ekki ef ég hef náð niðurstöðunni í þessu rétt heldur hitt að það eigi að ráðast af eðli máls hver áhrifin af aðkomu undirmanna að máli á forstigum geta orðið.