Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:30:39 (5902)

2002-03-11 16:30:39# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:30]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hæstv. forsrh. vil ég taka undir það að ég held að við getum vandað okkur betur við löggjöf á mörgum sviðum og eitt þeirra er það sem hæstv. forsrh. nefndi, þ.e. að menn skyldu halda sögunni til haga við setningu laga og tengsl ákvæða innbyrðis. Við getum líka haldið langar ræður um það að við erum kannski allt of gjörn á að breyta lögum. Lög eru varla byrjuð að virka í samfélaginu áður en við tökum upp á því að breyta þeim. Má t.d. nefna lög um stjórn fiskveiða. Varla líður svo vetur að ein, tvær, þrjár, fjórar breytingar líti ekki dagsins ljós, og það segir sig sjálft að erfitt getur verið að starfa í slíku umhverfi. Það er reyndar ekki umræðan hér, en út af tvennu, virðulegi forseti, óskaði ég eftir að fá að taka enn einu sinni til máls.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. forsrh. að Hæstiréttur hefði metið lögin óskýr. Það er hins vegar ekkert í dómi Hæstaréttar sem bendir til þess heldur byggir hann algerlega á forsendum héraðsdóms sem kemst að þeirri niðurstöðu að ráðherra beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og því valdi það efnisatriði, þ.e. þegar ráðuneytið sendir frá sér bréf --- en í því felist annaðhvort bindandi álit eða úrskurður, því að ráðherra sé vanhæfur til þess að koma að málinu á síðara stigi. Þetta finnst mér vera ofur eðlileg skýring og ekki fela í sér á neinn hátt ávísun á nokkra réttaróvissu í þessum efnum. Lykilatriðið er vitaskuld hvert efni þessa bréfs er. Ef um væri að ræða almenn leiðbeinandi atriði sem binda ekki ráðuneytið á nokkurn hátt gerir það náttúrlega ekki nokkurn aðila vanhæfan á síðara stigi. Ef í efni bréfs felst hins vegar bindandi álit ráðuneytisins eða kveðinn er upp úrskurður er um allt annað eðli að ræða. Því held ég að einnig þurfi að horfa á þetta í þessu samhengi.

Hitt atriðið sem gerði það að verkum að ég bað um orðið var eindregin hvatning hæstv. ráðherra til að lesa grg. sem fylgdi þessu frv. Ég held að rétt sé að upplýsa hann um að það hef ég einmitt gert og á þeim lestri byggi ég þá skoðun mína að í þessu frv. gæti einhvers misskilnings sem við eigum eftir að fara betur yfir í allshn. Það er a.m.k. mat mitt eftir að hafa hlýtt á þessa umræðu og lesið grg. sem fylgdi þessu máli.