Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:36:05 (5905)

2002-03-11 16:36:05# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, en jafnframt nokkrum breytingum á öðrum lögum sem fyrir skyldleika sakir eiga heima í frv. þessu.

Frv. þetta er til komið, herra forseti, vegna þess að ákveðið hefur verið að breyta um nafn á stofnun þeirri sem í dag nefnist Ríkisbókhald en hefur á undanförnum árum tekið að sér nokkur ný verkefni þannig að það heiti er ekki lengur réttnefni. Nú síðast var ákveðið að Ríkisbókhald tæki að sér verkefni ríkisfjárhirslunnar og var sú ákvörðun tekin á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 96/1969, um Stjórnarráð Íslands, þar sem segir m.a. að fjmrn. fari með mál er varða ríkisféhirslu og ríkisbókhald. Þessar skipulagsbreytingar tóku gildi hinn 1. mars sl. og hafa Ríkisbókhaldinu þegar verið falin þau verkefni sem áður var sinnt af ríkisfjárhirslunni. Þetta var gert í framhaldi af úttekt ráðuneytisins á starfsemi fjárhirslunnar og Ríkisbókhaldsins sem framkvæmd var á síðasta ári. Niðurstaða hennar var m.a. sú að ná mætti fram auknu hagræði með sameiningu verkefna þessara stofnana. Sú hagræðing kemur m.a. fram í einfaldara ferli skjala, bættu greiðsluferli og uppgjöri bókhaldsins. Nýtt fjárhags- og mannauðskerfi sem ætlunin er að taka í notkun á næsta ári ýtir enn frekar undir þessa hagræðingu en þar er um að ræða mjög flókið og fullkomið tölvukerfi.

Í kjölfar sameiningar þessara verkefna og í ljósi þess að hlutverk Ríkisbókhalds hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum eins og ég áður gat um er ljóst að breyta þarf lögum um fjárreiður ríkisins þar sem kveðið er á um stöðu og hlutverk Ríkisbókhalds. Jafnframt þykir núgildandi nafn stofnunarinnar hafa of þrönga skírskotun miðað við breytt hlutverk. Því er í frv. þessu lagt til að heitið Fjársýsla ríkisins verði framvegis notað í stað Ríkisbókhalds og forstöðumaður stofnunarinnar gegni heitinu fjársýslustjóri.

Markmið frv. er þess vegna tvíþætt. Í fyrsta lagi að leggja til breytingar á ákvæðum fjárreiðulaganna um hlutverk Fjársýslu ríkisins með vísan til þess sem að framan greinir, en í öðru lagi eru lagðar til nauðsynlegar og afleiddar breytingar vegna nafnabreytingarinnar, bæði á lögum um fjárreiður ríkisins og sömuleiðis öðrum lögum sem nefnd eru til sögunnar í frv. þessu.

Ég legg til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.