Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:54:19 (5907)

2002-03-11 16:54:19# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt innlegg inn í umræðuna sem lýtur aðallega að einni eða tveimur fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Ég missti því miður af framsöguræðu hæstv. ráðherra, þannig að vel má vera að hann hafi komið inn á það sem ég vildi gjarnan spyrja hann um nú við 1. umr. málsins.

Fljótt á litið virðist vera um eðlilegar breytingar að ræða að því er tekur til efnisatriða frv. og að hér sé fyrst og fremst verið að reyna að ná fram ákveðinni hagræðingu eins og hér kemur fram og að samhæfa betur vinnuferli skyldra verkefna og fela ríkisbókhaldi þau verkefni sem ríkisfjárhirslan hefur haft með höndum.

Ég velti fyrir mér áhrifunum af þessu að því er varðar sparnað í útgjöldum af því að talað er um að reiknað sé með sparnaði í útgjöldum í þeirri umsögn sem liggur fyrir frá fjárlagaskrifstofunni. Ég velti því fyrir mér hvað hann er mikill eða hvort hægt sé að leggja eitthvert mat á hann þar sem einungis er hægt að reikna út að því er varðar þann sparnað að ekki verði endurráðið í starf ríkisféhirðis eins og hér kemur fram, að væntanlega er þá hugmyndin sú að leggja niður starf ríkisféhirðis. Ég velti þá fyrir mér hvort aðrir sem hafa starfað með ríkisféhirði haldi allir sínu starfi áfram. Ég velti líka fyrir mér gildistökunni að því er varðar það að ríkisféhirðir láti af störfum. Er það bara hefðbundinn uppsagnarfrestur, eða verður gerður við hann einhvers konar samningur? Það rifjaði líka upp fyrir mér svar hæstv. ráðherra til mín á síðasta þingi almennt um starfslokasamninga og reyndar fyrirspurn sem hæstv. forsrh. svaraði á þessu þingi. Þar kom fram, og reyndar hjá fjmrh. líka á síðasta þingi, að verið væri að vinna að samræmdum leiðbeinandi reglum sem mundu gilda fyrir ráðuneyti og stofnanir þegar um væri að ræða starfslok. Ég vil því nota tækifærið fyrst það gefst hér að þessu gefna tilefni að spyrja hæstv. ráðherra hvort þeirri vinnu sé lokið sem boðuð var í ráðuneyti hans um að setja samræmdar reglur um starfslokasamninga.

Af því að við erum að fjalla um frv. um fjárreiður ríkisins, þá vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra þótt það tengist ekki beint eða tengist ekki efni þessa frv. en tengist þó lögum um fjárreiður ríkisins, mál sem ég hef haft áhuga á að væri í fastari búningi í stjórnsýslunni en verið hefur til þessa, þ.e. að við hv. þm. fengjum meiri upplýsingar um það efni, þannig að þar væri meira aðhald og stjórnfesta á ferðinni en til margra ára, í ársreikningi fylgdi t.d. sundurliðað yfirlit um launagreiðslur, bifreiða-, ferða- og risnukostnað. Ég spurði reyndar hæstv. fjmrh. um það mál á síðasta þingi og það var í tilefni frv. sem ég flutti um það efni á 125. löggjafarþingi, þar sem efh.- og viðskn. fjallaði um það mál og hafði afgreitt það með ákveðnum hætti þar sem hún beindi tilmælum til fjmrh. um að hann hlutaðist til um að unnið yrði að samningu reglugerðar á grundvelli laganna þar sem kveðið verði á um þau efnisatriði sem komu fram í frv. mínu, þ.e. að það fylgdi með sem fylgirit með ríkisreikningi, það yfirlit sem ég hef hér nefnt, um sundurliðaðan bifreiða-, ferða- og risnukostnað. En í skriflegu svari hæstv. ráðherra til mín á síðasta þingi kom fram að ráðherrann teldi að móta þyrfti reglur um það hvernig þessar upplýsingar yrðu aðgengilegar og hér segir orðrétt í svari ráðherrans, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við þau tilmæli sem fram koma í nefndarálitinu er nú unnið að samningu reglugerðar á grundvelli laganna þar sem nánar verður kveðið á um þessa þætti.``

Ég vildi líka, herra forseti, nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvað þeirri vinnu liði, hvort samningu þeirrar reglugerðar væri lokið og hvort í henni mætti finna einhver fyrirmæli um hvernig með slíkar upplýsingar verði farið í ríkisreikningi og gagnvart þinginu.