Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 16:59:47 (5908)

2002-03-11 16:59:47# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er í eðli sínu svokallaður bandormur, þ.e. hér er lögð til breyting á einum sex lagabálkum og því er öllu steypt í eitt frv. Það þýðir ekki endilega að verið sé að opna umræðu um öll þessi aðskiljanlegu málefni, t.d. lögin um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993.

Það sem er verið að leggja til í þessu frv. er að einu tilteknu heiti sem skilgreint er í lögunum um fjárreiður ríkissjóðs, en einnig nefnt í nokkrum öðrum lögum, verði breytt. Tilkoma málsins, eins og ég gat um í framsögu minni, er sú að fjmrn. gerði á síðasta ári úttekt á því hvort unnt væri að hagræða og spara í rekstri þessara tveggja stofnana, Ríkisfjárhirslunnar og Ríkisbókhaldsins. Niðurstaðan varð sú að það væri hægt og þess vegna ákváðum við að gera það. Þær breytingar tóku gildi 1. mars sl. og kölluðu í sjálfu sér ekki á lagabreytingar vegna þess að að því er Ríkisfjárhirsluna varðar þá gilda ekki nein sérstök lög um hana. Hins vegar er fjmrn. í stjórnarráðsreglugerðinni falið að fara með mál er varða ríkisféhirslu og ríkisbókhald.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hvað þarna væri um mikinn sparnað að ræða. Við vildum fara varlega í að fullyrða um það. En það er alveg ljóst að það eru nokkrar milljónir á ári hverju, að því er við vonum, sem þarna er hægt að spara með þessari hagræðingu. Fyrrverandi ríkisféhirðir náði sjötugsaldri í síðasta mánuði og lét af störfum. Sá mikli sómamaður sem gegnt hefur embætti sínu í ríflega 22 ár af mikilli skyldurækni og samviskusemi er sem sagt hættur og um hann gilda bara almennar reglur um menn sem ná eftirlaunaaldri. Niðurstaðan í þessu varð sú að næstráðandi í ríkisfjárhirslunni, sem hafði jafnan leyst ríkisféhirðinn af, tekur við sem ríkisféhirðir en verður jafnframt skrifstofustjóri í hinni nýju ríkisfjársýslu, Fjársýslu ríkisins, þ.e. gamla Ríkisbókhaldinu. Það fækkar með öðrum orðum um einn forstöðumann í kerfinu vegna þess að hann verður skrifstofustjóri en ekki forstöðumaður í sinni gömlu stofnun. En titillinn sem hv. þm. Jón Bjarnason gerði að umtalsefni mun áfram verða til, enda er þetta gamall og virðulegur titill. Að vísu í örlítið breyttri mynd nær hann alveg aftur til ársins 1904 þegar Stjórnarráð Íslands tók til starfa en þá bar viðkomandi titilinn landsféhirðir. Sá titill breyttist í ríkisféhirðir rúmum tíu árum síðar, ef ég man þetta nú rétt. Aðrir starfsmenn í stofnuninni halda sínum störfum óbreyttum. Þetta er gert í ágætri sátt og samkomulagi við starfsmenn stofnunarinnar sem hafa að sjálfsögðu góðan skilning á því að rétt sé að reyna að hagræða þarna eins og annars staðar.

En það kom upp eitt vandamál sem enginn hefur nefnt í þessu sambandi, þ.e. að það er ekki góð latína að láta bókara og gjaldkera vera allt of nálægt hvor öðrum, en það gerist við þessa breytingu að nálægðin verður meiri. Þess vegna verður reynt að hafa þarna eins konar kínamúr á milli inni í þessari stofnun þannig að ekkert fari nú á milli mála að því er það varðar. En líka vegna þessa máls þótti eðlilegt að breyta heiti stofnunarinnar til að gefa það skýrt til kynna að hún er ekki lengur bara bókhaldsstofnun. Hún er líka með þetta gjaldkera- eða féhirðishlutverk, en einnig þau verkefni sem henni hafa áður verið færð, t.d. á vettvangi launaumsýslu og launaútborgunar. Við þekkjum öll hér sem erum starfsmenn ríkisins að launagreiðsluseðlarnir okkar og uppgjör um hver áramót kemur nú frá ríkisbókhaldinu. Það heiti var því talið of þröngt, hafa of þrönga skírskotun, miðað við þær breytingar sem þarna hafa orðið og eru að verða. Þetta er skýringin á þessu máli sem er í eðli sínu alveg sáraeinfalt og ætti að vera pólitískt óumdeilt, eins og ég hygg að það sé nú, og gefur ekki tilefni að mínum dómi til sérstakra vangaveltna um önnur atriði í einhverjum af þessum sex lagabálkum sem hér er verið að breyta.

Við ákváðum að vera ekkert að hrófla við öðrum ákvæðum. Sjálfsagt má um það deila hvort ríkisendurskoðandi eigi að vera í ríkisreikningsnefnd. Þannig hefur það nú verið áratugum saman, alveg frá því lögin um ríkisbókhald voru sett 1966 að ég held, að ríkisendurskoðandi hefur tekið þátt í þessu kerfi og því var ekki breytt árið 1986 þegar Ríkisendurskoðun var flutt frá fjmrh. til þingsins. Það er eflaust vegna þess að ríkisendurskoðandi býr yfir svo mikilli tæknilegri þekkingu á þessum málum að hann var talinn ómissandi í slíka fagnefnd sem ríkisreikningsnefndin er. Um þetta má eflaust deila fram og aftur. En það var bara ákveðið að þetta frv. fjalli ekki um neitt annað en þetta tiltekna tilefni, sem ég tel mig nú hafa útskýrt nokkuð rækilega, og þess vegna eru þar ekki neinar fleiri breytingar með í för, hvorki á lögunum um fjárreiður ríkisins né öllum hinum lögunum sem hér eru sérstakir kaflar um í þessu frv. eins og áður er nú komið fram.

Þess vegna er kannski ekki tilefni fyrir mig til þess að ræða mikið hér um önnur atriði. En ég get upplýst hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að ekkert nýtt er að frétta af málinu sem hún tók hér sérstaklega upp, hvorki að því er varðar starfslokasamningana né þá reglugerð sem hún hefur hér óskað eftir og yfirlit um bifreiðakostnað og annað þess háttar, í það minnsta ekki sem hefur rekið á mínar fjörur frá því við skiptumst síðast á skoðunum um þetta mál hér skriflega í fyrirspurnarformi á síðasta þingi.

Síðan vildi ég leiðrétta hv. þm. Jón Bjarnason. Mín tillaga var sú að þetta mál færi til efh.- og viðskn.