Fjárreiður ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:12:05 (5912)

2002-03-11 17:12:05# 127. lþ. 94.6 fundur 581. mál: #A fjárreiður ríkisins# (Fjársýsla) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:12]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau staðfestu náttúrlega að hér er um einfaldar og sjálfsagðar lagabreytingar að ræða sem ekki ættu að verða neinar deilur um. Ég notaði tækifærið af þessu tilefni eins og iðulega er gert til að spyrja hæstv. ráðherra um tvö mál sem mér eru nokkuð hugleikin af því ég veit að þau eru búin að vera í töluvert langan tíma í vinnslu í ráðuneytinu. Annað tengist lögunum um fjárreiður ríkisins. Hæstv. ráðherra upplýsti að hann vissi ekki hvar þessi mál væru stödd á vettvangi ráðuneytis síns eða hvernig þeirri vinnu yndi fram. Ég hygg að þetta sé nú búið að vera töluvert lengi í skoðun í ráðuneytinu, sérstaklega það sem snýr að því sem móta þarf reglur um í tengslum við lagabreytingu sem var gerð 1997, um fjárreiður ríkisins. Þá féll niður það sem hafði viðgengist um margra ára bil, þ.e. að setja þessi fylgirit inn í ríkisreikningana sem ég nefndi um ferða-, risnu- og bifreiðakostnað. Ég hygg því að það ætti nú að fara að sjá fyrir endann á því starfi. Er það ekki svo, herra forseti, --- ég spyr hæstv. ráðherra um það --- að þessari athugun á reglugerðarsmíðinni sé ekki lokið? Eða er henni lokið án þess að í henni séu upplýsingar um þessi atriði sem ég er hér að kalla fram að fylgi ríkisreikningi? Við því vil ég raunverulega fá skýrari svör, þ.e. að reglugerðarsetningunni sé þá ekki lokið, en ekki að það hafi verið ákveðið að hafa þessa þætti ekki í reglugerðinni og þar með upplýsingaskyldu ráðherrans til þingsins um þetta efni.

Varðandi starfslokasamningana þá hafa leiðbeiningareglur náttúrlega verið ansi lengi í undirbúningi. Ég hefði gjarnan viljað að ráðherrann upplýsti okkur um hvenær þeirri vinnu yrði lokið, enda vitum við að það á að setja nefndum skýrari tímamörk um viðfangsefni sem þær eru að fjalla um þannig að það taki ekki mörg ár að setja reglugerðir eða leiðbeiningar um brýn verkefni sem þarf að móta reglur um.