Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:23:16 (5917)

2002-03-11 17:23:16# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessar skýringar. Ég tek þær fullgildar. Vonandi er þetta nær því að vera öryggisráðstöfun heldur en að menn hafi ástæðu til að ætla að af þessu hafi verið veruleg brögð, að þarna hafi greiðslur sloppið fram hjá ákvæðum um lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða af öllum launatekjum.

En það er, herra forseti, ýmislegt af þessu tagi sem ég held að ástæða sé til að fara yfir. Það kemur líka inn á fyrstu ákvæði 1. gr. frv. Þar var annað atriði sem ég hef verið að skoða, þ.e. ósköp einfaldlega sú mikla aukning sem við sjáum á því að menn búi um starfsemi sína í einkahlutafélögum. Þá verða mörkin óglögg á milli eiginlegra launatekna viðkomandi aðila, eins og nýleg og fræg dæmi sanna um einkahlutafélög sem menn stofnuðu í raun um sjálfan sig, selja síðan öðrum aðilum vinnu þess einkahlutafélags og færa sem rekstrartekjur inn í félagið. Síðan geta menn stofnað til útgjalda á móti og útkoman verður jafnvel sú að enginn eða lítill hagnaður verður af starfrækslu einkahlutafélagsins sem menn stofnað utan um sjálfa sig.

Það er ansi hætt við að mörkin geti orðið óljós á milli þess sem eru eiginlegar tekjur viðkomandi aðila og annarra útgjalda í þessum félögum. Þá er ekkert við að styðjast annað en þessi ákvæði um hið reiknaða endurgjald sem myndar einhvern lágmarksgrunn. Hins vegar er afar hætt við því að tilhneigingin verði sú að taka inn viðbótartekjur og búa um það með þessum hætti. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort ráðuneytið hafi farið eitthvað yfir þessi mál í heild sinni í ljósi þeirrar þróunar sem við sjáum á þessu sviði.