Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:25:33 (5918)

2002-03-11 17:25:33# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Breytingin sem hér er verið að mæla fyrir á lögum um tryggingagjald og önnur atriði, skyldutryggingu lífeyrisréttinda, er auðvitað í samhengi við aðrar breytingar sem gerðar hafa verið á undanförnum mánuðum í þinginu á skattalögum. Það er auðvitað nauðsynlegt, eins og þá kom fram, að reglurnar um einkahlutafélög séu skýrar öllum mönnum sem ákveða að fara út í slíkan rekstur.

Einkahlutafélög eru fyrirbæri sem koma til sögunnar með EES-samningnum. Ég tel að þau hafi miklu hlutverki að gegna í þjóðfélaginu og við höfum í skattalögum fyrr í vetur gert þannig félögum enn auðveldara um vik að starfa heldur en áður var. En það breytir ekki því að misnotkun á þessu félagsformi í skattalegu tilliti verður ekki liðin. Við viljum koma í veg fyrir misnotkun á þessum félögum með því að hafa þessar reglur allar saman skýrar.

Ég vil þó bæta því við að það er ekki þar með sagt að þó að menn stofni einkahlutafélag komi þeir betur út en í öðru formi. Menn geta auðvitað lagt þetta niður fyrir sér, kostnaðinn við að stofna einkahlutafélagið, reiknað endurgjald sem skattstjóri ákveður sem lágmarkstekjur í slíku félagi og borið saman við önnur félagaform sem geta átt við eða einstaklingsrekstur, sem væntanlega er þá samkeppnisreksturinn eða hitt módelið sem menn geta notað ef þeir eru í atvinnurekstri. Þannig er ekki þar með sagt að einkahlutafélag henti öllum betur. Hins vegar er ástæðulaust annað en að reglur um tryggingagjöld og lífeyrisiðgjöld séu alveg skýrar.