Tryggingagjald o.fl.

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:28:05 (5919)

2002-03-11 17:28:05# 127. lþ. 94.7 fundur 582. mál: #A tryggingagjald o.fl.# (reiknað endurgjald, breyting ýmissa laga o.fl.) frv. 65/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hæstv. fjmrh. mælir hér fyrir, um breytingu á lögum um tryggingagjald, staðgreiðslu opinberra gjalda og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er m.a. flutt í tengslum við það stóra skattalagamál sem fjallað var um hér fyrir jólin, þ.e. þær miklu breytingar sem gerðar voru á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og samþykkt voru fyrir jólin. Þetta frv. felur m.a. í sér að skýra betur í lögum um tryggingagjald hvernig farið skuli með reiknað endurgjald manns sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila sem hann er ráðandi í vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Allt er þetta gott og blessað, herra forseti. Ekki veitir af að styrkja ákvæðin um skattalega framkvæmd. Ég vil í því sambandi rifja upp að nokkuð hart var tekist á um það fyrir jólin, í þessu stóra skattalagafrv., að með breytingunni sem þá var gerð hafi yfirfærsla á einkarekstri í einkahlutafélög verið auðvelduð með því að heimila breytinguna án þess að sú yfirfærsla hefði í för með sér skattskyldar tekjur fyrir einstaklinga eða hlutafélag.

Það var líka mikið rætt og margir tjáðu sig um það í umsögnum, bæði ríkisskattstjóri og Þjóðhagsstofnun, að þessi mikla lækkun á tekjuskatti lögaðila eins og hún var þá fyrirhuguð mundi hvetja einstaklinga í rekstri til að breyta rekstrinum í einkahlutafélög og færa með því hluta launa yfir á hagnað og arð og greiða þannig lægri skatta. Um þetta var hart tekist á eins og menn muna. Menn töldu að hér væri verið að opna leið til skattalegs hagræðis með því að opna fyrir einkahlutafélögin með þeim hætti sem þarna var gert. Því var haldið fram að skattalegt hagræði og möguleikar til skattsniðgöngu væru mjög miklir með þessari breytingu og leiða mætti líkur að því að einstaklingsrekstur legðist af með flutningi hans yfir í einkahlutafélög.

[17:30]

Það er auðvitað nokkuð fróðlegt að skoða þá aukningu sem orðið hefur á þeim skamma tíma sem liðinn er frá samþykkt þessara laga. Manni sýnist, herra forseti, af þeim fjölda sem hefur stofnað til einkahlutafélaga bara í janúar og febrúar að það gangi eftir sem við héldum fram, að þetta yrði gífurlegur hvati, einmitt vegna skattahagræðisins, til þess að breyta einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélög. Þannig hefur komið fram, herra forseti, að ef litið er til nýskráðra hlutafélaga og einkahlutafélaga í janúar og febrúar 2001 og 2002 og þessir tveir mánuðir á árunum 2001 og 2002 bornir saman hefur heildarfjöldinn aukist úr 336 félögum í 664 félög. Um er að ræða nærri tvöfalt fleiri einkahlutafélög heldur en í sambærilegum mánuðum á síðasta ári. Reyndar fækkaði skráningum einkahlutafélaga um 10% allt árið í fyrra, á árinu 2001, samanborið við árið 2000. Auðvitað er þetta bein afleiðing af þeirri skattabreytingu sem átti sér stað fyrir jólin og ég held að varla sé hægt að halda öðru fram, herra forseti, en að þessa miklu fjölgun á einkahlutafélögum megi beinlínis rekja til þess skattahagræðis sem varð af þessari lagabreytingu fyrir jólin.

Það er einmitt fróðlegt að skoða í hvaða atvinnugreinum þessi fjölgun hefur átt sér stað á þessum fyrstu tveimur mánuðum ársins. Fjölgunin hefur mest orðið í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Þar hefur félögunum fjölgað úr 31 félagi á þessum fyrstu tveimur mánuðum árið 2001 fram til fyrstu tveggja mánaðanna á þessu ári þannig að þar er um verulega fjölgun að ræða. Í fasteignaviðskiptum fjölgar einkahlutafélögunum úr 96 í 170 á þessum tveim tímabilum og í heilbrigðis- og félagsþjónustu hefur enn fremur orðið gífurleg aukning, þeim hefur á þessum tveimur samanburðartímabilum fjölgað úr 7 í 52 og töluverð fjölgun hefur orðið í fiskveiðum, úr 21 í 72.

Ég held því, herra forseti, að alveg óhætt sé að segja að allt hafi gengið eftir sem við héldum fram fyrir jólin. Það er alveg ljóst að fyrst verið var að opna fyrir slíka skráningu á annað borð er mjög brýnt að halda vel utan um hana, herra forseti. Reisa verður nauðsynlegar girðingar til að ekki sé verið að misnota þetta félagaform eins og hæstv. ráðherra vék lítillega að í máli sínu áðan.

Án þess að ég hafi skoðað það ítarlega býst ég við að þessi atriði í I. og II. kafla frv., þ.e. um breytingu á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi, og reyndar líka í þeim kafla sem fjallar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda séu tilraun til að reisa þær girðingar sem þarf.

Engu að síður vil ég halda til haga og ítreka það sem ég sagði fyrir jólin, ég tel að opnað hafi verið fyrir þessa breytingu á einkahlutafélögunum með óeðlilegum hætti eins og það var gert. Auðvitað væri áhugavert, herra forseti, nú við 1. umr. um þetta mál að heyra álit hæstv. fjmrh. á því hvað hann teldi að reynslan af þessum tveimur mánuðum sýndi okkur, hvort hann teldi fjölgunina óeðlilega mikla eða hvort hún væri í samræmi við það sem hann teldi eðlilegt miðað við þá breytingu sem þarna var gerð. Það liggur fyrir að á tveim fyrstu mánuðum þessa árs samanborið við tvo fyrstu mánuðina á síðasta ári er um nærri tvöföldun að ræða, og gífurlega fjölgun í sumum atvinnugreinum.

Ég held því, herra forseti, að ástæða sé til að fylgjast nokkuð grannt með þeirri þróun sem hér er á ferðinni og, eins og ég segi, að reisa þær skorður sem þarf til þess að tryggja að vel sé haldið utan um það sem snýr að skattlagningunni hvað þessi fyrirtæki varðar. Ég sé að gerð er tilraun til þess með þessu frv. og því ber að fagna.