Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 17:59:49 (5925)

2002-03-11 17:59:49# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal nú viðurkenna að slík heildarúttekt hefur ekki farið fram, sem hv. þm. spurði um, að því er varðar tolla á ýmiss konar öryggisbúnað. Hins vegar er það almennt þannig að tollar eru mjög á undanhaldi og skipta miklu minna máli í heildartekjuöflun ríkissjóðs en áður var. En þetta frv. eða það mál sem er umfjöllunarefni þess er hins vegar til komið af alveg sérstöku tilefni sem er rakið í greinargerðinni og ég gat um í framsögu minni að sú breyting hefur orðið að framleiðendur þessara stóla hafa flutt framleiðslu sína út af frítollasvæðinu, sem við erum annars aðilar að, og til fjarlægari landa þar sem lagður er tollur á innflutning á vörum frá og þess vegna kemur upp misræmi, bæði miðað við það sem áður var og eins ef um er að ræða stóla sem þó koma frá fríverslunarlöndum okkar eftir sem áður. Þetta er því kannski ekki síst samkeppnisspursmál fyrir þá sem selja slíka stóla að þeir séu ekki af opinberri hálfu skattlagðir með mismunandi hætti eftir uppruna sem þó er að vísu gert með margar vörur. En vegna þess að hér er um að ræða lögboðið öryggistæki í bíla og það fyrir lítil börn þá þótti okkur einboðið að bregðast við því erindi sem barst út af þessu máli á þennan hátt án þess þó að það sé á grundvelli einhverrar heildarúttektar á því máli sem þingmaðurinn spurði hérna um.