Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:01:53 (5926)

2002-03-11 18:01:53# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég tel þau alveg fullnægjandi hvað þennan þátt málsins varðar og tek það að sjálfsögðu fram aftur og til að fyrirbyggja allan misskilning að mér finnst þetta sjálfsögð og góð breyting og ráðuneytið á hrós skilið fyrir það að taka á málinu. Það er nú oft sem menn eru ekkert að flýta sér þegar verið er að leiðrétta í þessa áttina, að lagfæra eða lækka álögur þar sem ekki standa efni til þess að hafa þær eins og í þessu tilviki. Auðvitað varðar þetta væntanlega mjög óverulega fjárhagslega hagsmuni fyrir ríkissjóð. En þetta er meira svona táknræn aðgerð og sjálfsögð aðgerð og líka til að hafa þessa hluti í samræmi.

Þetta er gott svo langt sem það nær. En ég endurtek, og skal ekki hafa um það fleiri orð, að ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að láta líta á það í ráðuneyti sínu hvort ekki væri skynsamlegt að fara í úttekt á þessum málum og kalla kannski til fróða aðila sem kæmu að þessu frá t.d. dómsmrn., Umferðarráði og jafnvel víðar að þannig að farið væri yfir m.a. tolla og reglur um skattalega meðferð mikilvægs öryggisbúnaðar. Það þarf að vísu líka að fara yfir notkunarreglur. Mér er kunnugt um það t.d. að í gildi eru furðulegar reglur sem banna tiltekinn öryggisbúnað nema um sé að ræða atvinnutæki. Einstaklingar hafa lent í því að þeir hafa ætlað að setja öryggisbúnað í einkabíla sína og þeim hefur verið meinað að gera það, svo sem eins og ýlur þegar sett er í bakkgír og ekið aftur á bak, vegna þess að einhverjar reglur tilgreina að þetta megi ekki nota nema um atvinnutæki sé að ræða o.s.frv.

Ýmislegt af þessu tagi þarf að fara yfir. Mér er ljóst að það heyrir ekki undir fjmrh. En manni þætti vænt um að sá þáttur málsins sem er á hans könnu yrði skoðaður og það væri sómi að því að hæstv. fjmrh. hefði um þetta frumkvæði.