Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:14:58 (5928)

2002-03-11 18:14:58# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem þingmaðurinn sagði að ég get ekki útskýrt hvers vegna reglugerðarheimildir í lögum um meðferð opinberra mála eru eitthvað rýmri en hér er um að ræða í tollalögum. Hins vegar er það ekki rétt --- ég held að það hljóti að vera misskilningur --- að líkja þessu við skatt. Þar af leiðandi er þetta ekki framsal skattlagningarvalds.

Það sem um er að ræða er að annars vegar lögreglustjórar og hins vegar tollstjóri hafa heimild til að ljúka málum, þ.e. án þess að senda þau í kærumeðferð eða senda þau lengra, eins og sagt er, ef þeir telja að endanleg refsing í málinu yrði ekki meiri en sekt sem nemur í þessu tilfelli 300 þús. kr. Því er ekki um það að tefla hér að þeim sé framselt skattlagningarvald. Þeir hafa hins vegar heimildir til þess að klára mál með sektarboði svokölluðu og koma því út úr heiminum ef viðkomandi játar sekt sína og er tilbúinn að borga sektina strax. Um það snýst málið. En ég get svo sem tekið undir það með hv. þm. að kannski er dálítið ankannalegt að þetta sé í öðrum lögunum heimilað með reglugerð en hins vegar þurfi lagabreytingar til, þ.e. að gera breytingar á þessum fjárhæðum.

Að því er varðar virðisaukaskattinn, hvort sem er á barnabílstólum eða einhverjum öðrum varningi þá er sá listi að sjálfsögðu endalaus sem hv. þm., ég sjálfur sem ráðherra eða hver sem er hér í salnum, gæti tínt til um nauðsynjavörur sem eðlilegt væri að lækka eða fella niður virðisaukaskatt á. Svar mitt við þessari tilteknu spurningu er nei. Ég er ekki tilbúinn að ganga þá götu að fella niður virðisaukaskattinn á þessum tiltekna varningi sem hér er til umræðu frekar en öðrum. Það verður að hafa þetta kerfi skothelt. Því miður er ekki grundvöllur fyrir því að tína út einhvern varning sem mér líst persónulega vel á eða hv. þm. líst persónulega vel á. Þá erum við komin í miklar ógöngur með þetta kerfi.