Tollalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:17:11 (5929)

2002-03-11 18:17:11# 127. lþ. 94.8 fundur 583. mál: #A tollalög# (sektir, barnabílstólar) frv. 66/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að það er vandmeðfarið að veita undanþágur frá virðisaukaskatti. Aftur á móti eru víða undanþágur í virðisaukaskattskerfinu. Við erum hér að fjalla um mjög sérstakt mál sem hefur að mínu viti algjöra sérstöðu, vegna þess að hér er um öryggisatriði að ræða varðandi börn í bílum. Þetta er mikið atriði fyrir barnafjölskyldur, að þetta sé ekki munaðarvara sem fáir geti keypt, þegar um slíkt öryggistæki er að ræða. Ég tel að öryggið hafi algjöra sérstöðu að því er varðar barnabílstóla og þar með sé réttlætt að ekki sé greiddur af honum virðisaukaskattur. Það væri fróðlegt að fara yfir ýmsar undanþágur á virðisaukaskatti, hvort þar sé fremur réttlætanlegt að hafa undanþágur en að því er varðar barnabílstóla.

Varðandi hitt atriðið þá verður það auðvitað skoðað sérstaklega í nefnd sem ráðherrann hafði ekki svar við, sem ég get ekkert ætlast til, þ.e. af hverju hann þarf að leita lagastoðar út af sektunum varðandi tollamálin en ekki dómsmrh., líkt og varðandi lögreglusektir. Ég tel, herra forseti, að þó að það sé út af fyrir sig örugglega rétt að kannski sé ekki hægt að kalla þetta skattlagningarvald þá er þó verið að veita heimild til þess að ákveða gjaldtöku eða sekt, herra forseti. Mér finnst að við þurfum að fá miklu betri skýringu á því en hæstv. ráðherra getur veitt okkur í þessari umræðu, þ.e. hvaða forsendur liggja að baki þeirri ákvarðanatöku sem tekin er varðandi hvert og eitt brot fyrir sig.

Hér er um að ræða háar fjárhæðir. Þetta er ákveðin gjaldtaka eða sekt eða hvað sem menn vilja kalla það. Þó að ekki sé hægt að flokka þetta undir skattlagningu verðum við að fá skýringu á því við meðferð málsins í nefnd hvernig þessar fjárhæðir eru ákveðnar innan þessara 300 þús. kr. marka.