Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:20:35 (5930)

2002-03-11 18:20:35# 127. lþ. 94.9 fundur 594. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (viðmiðunarlaun, réttur barna og maka o.fl.) frv. 43/2002, 595. mál: #A Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga# (réttur barna og maka) frv. 42/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem og frv. til laga um breytingu á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Eins og rakið er í grg. með frv. þessum eru með þeim lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur sérstaklega óskað eftir að gerðar verði. Þar er fyrst og fremst um að ræða breytingu á lögunum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en til samræmis er lögð til ein breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 5. gr. laga nr. 1/1997 varðandi þær aðstæður sem skapast þegar iðgjaldagreiðslur til B-deildar sjóðsins falla niður.

Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að breyta ákvæði þessu til að koma til móts við þarfir sjóðfélaga, einkum kennara, en algengt er að þeir taki sér launalaust leyfi sem varir í tólf mánuði. Þegar viðkomandi vill hefja greiðslur til B-deildarinnar að nýju er honum það ekki heimilt eins og ákvæðið er nú en þar segir að ef iðgjaldagreiðslur til sjóðsins falli niður í tólf mánuði eða lengur, eða réttindaávinnsla án iðgjaldagreiðslu fellur niður í jafnlangan tíma, eigi viðkomandi ekki framar rétt á aðild að B-deild sjóðsins.

Hafa sjóðfélagar lýst yfir óánægju með þetta ákvæði en með þeirri breytingu sem lögð er til í þessu frv. verður sjóðfélögum heimilt að láta iðgjaldagreiðslur falla niður í allt að tólf mánuði án þess að réttur þeirra til aðildar að B-deild sjóðsins falli niður.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 6. mgr. 23. gr. laganna um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ákvæði 6. mgr. 23. gr. laganna var ætlað að koma í veg fyrir sjálfdæmi launagreiðanda við ákvörðun á lífeyrisréttindum starfsmanna í lífeyrissjóðnum. Stjórn sjóðsins hefur, með stoð í ákvæðinu, metið það svo að henni beri skylda til að ákveða viðmiðunarlaun til greiðslu lífeyris þegar sjóðfélagar taka ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðast við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga sem sveitarfélög gera á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Framangreinda framkvæmd stjórnar LSR við beitingu á ákvæði 6. mgr. 23. gr. má að sjálfsögðu rekja til tilgangs löggjafans sem er að fela stjórn sjóðsins ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu iðgjalda til að koma í veg fyrir sjálfdæmi launagreiðanda við ákvörðun á lífeyrisréttindum í sjóðnum. Kemur þetta skýrt fram í athugasemdum við ákvæði d-liðar 13. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 141/1996, en til þess ákvæðis má rekja 6. mgr. 23. gr. laga nr. 1/1997. Þessum tilgangi verður ekki náð nema ákvæðinu sé beitt jafnt fyrir ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu iðgjalda sem og við ákvörðun á viðmiðunarlaunum til greiðslu lífeyris úr sjóðnum.

Með 2. og 3. gr. þess frv. sem hér er lagt fram, um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er verið að skjóta styrkari stoðum undir fyrrgreinda framkvæmd stjórnar sjóðsins við ákvörðun á viðmiðunarlaunum og taka af allan vafa um að hún hafi fullnægjandi lagastoð í 6. mgr. 23. gr. laganna.

Í kjölfar ofangreindrar breytingar er jafnframt lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 35. gr. laga nr. 1/1997 í tengslum við svokallaða ,,eftirmannsreglu``. Nýja ákvæðið kveður á um að kjósi sjóðfélagi að lífeyrir taki breytingum sem verða á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf er hann gegndi og laun fyrir það starf eru ekki tæk til viðmiðunar á iðgjaldagreiðslum til deildarinnar, sbr. 6. mgr. 23. gr., þá skal stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem greiðslur lífeyris taka mið af.

Í þriðja lagi er lögð til breyting sem tekur á því hvenær barna- og makalífeyrisréttur úr sjóðnum verður virkur og í tengslum við það hvernig meðhöndla beri iðgjaldagreiðslur til sjóðsins sem eru til komnar eftir andlát sjóðfélaga. Tekur sú breyting til 1. mgr. 27. og 29. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en einnig 1. mgr. 11. og 12. gr. laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.

Með 4. og 5. gr. frv. um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og með 1. og 2. gr. frv. um breytingu á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, er lögfest sú venjuhelgaða framkvæmd stjórnar LSR að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum til eftirlifandi maka eða barna fyrr en launagreiðslur falla niður og iðgjaldagreiðslum til sjóðsins vegna viðkomandi er lokið. Í allflestum kjarasamningum sem fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs eða sveitarfélög eru aðilar að eru ákvæði þar sem kveðið er á um launagreiðslur í tiltekinn tíma eftir lát starfsmanns að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Forsögu slíkra ákvæða má rekja til ákvæðis í eldri lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, þar sem kveðið var á um launagreiðslur til maka látins starfsmanns. Af launum þessum hafa verið greidd iðgjöld í lífeyrissjóðinn. Í slíkum tilvikum hefur LSR ekki greitt út lífeyri fyrr en iðgjaldagreiðslum til sjóðsins er lokið. Telja ber eðlilegt að greiða ekki lífeyri úr sjóðnum á sama tíma og laun eru greidd vegna viðkomandi sjóðfélaga og iðgjöld greidd af þeim launum til sjóðsins. Á meðan iðgjöld eru greidd í sjóðinn er enn verið að reikna réttindaávinning á sjóðfélagann. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir launagreiðslum eftir andlát sjóðfélaga og má ætla að ekki hafi verið hugað að slíkum greiðslum við lögfestingu ákvæða um barna- og makalífeyri.

Núverandi framkvæmd styðst við áratugalanga hefð og er í fullu samræmi við þann tilgang með greiðslu barna- og makalífeyris að koma til móts við tekjutap sem aðilar verða fyrir við missi framfæranda en ekki reynir á það tekjutap fyrr en eftir að launagreiðslum lýkur. Með þessari lagabreytingu er skotið styrkari stoðum undir núverandi framkvæmd á greiðslu maka- og barnalífeyris.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessum verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.