Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:54:57 (5936)

2002-03-11 18:54:57# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að þetta frv. sé nauðsynlegt og mér fannst það sem ráðherra sagði um það, þ.e. að hafa bannað þessa hluti með reglugerðum, benda eindregið til þess að menn hafi ekki verið með nægilega sterka lagastoð fyrir því að hafa slík bönn. Ég velti því dálítið fyrir mér hvort þessi aðferð gangi sem þarna er gert ráð fyrir, þ.e. að Hollustuvernd ríkisins geti út af fyrir sig ákveðið að einhver efni séu nægilega hættuleg og ráðherra staðfest það. Þannig væri í raun og veru ekki lagastoð fyrir því hvaða efni væru bönnuð heldur almenn lagafyrirmæli sem segja að ráðherra geti valið, eða staðfest val Hollustuverndar á þeim eiturefnum sem bönnuð væru. Mér finnst að það hefði verið öruggara að Alþingi hefði samþykkt lög sem væru betur skilgreind en þetta, og það ætti ekki að vera erfitt í framkvæmd að breyta slíkum lögum með tilliti til þess ef í ljós hefur komið að einhver eiturefni hafi verið flutt inn eða sú hætta stofnast að þau verði flutt inn.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er í sjálfu sér einföld: Er hún sannfærð um að þessi aðferð sem hér er viðhöfð standist, þ.e. að fela þetta vald fullkomlega í hendur Hollustuverndar ríkisins sem eigi síðan að velja þau efni sem mundu hljóta það heiti að vera hættuleg efni eða eiturefni, með staðfestingu ráðherra?

Ég er ekki sannfærður um að þetta gangi en út af fyrir sig tel ég skynsamlegt að setja lög um þetta efni. Mín skoðun er hins vegar sú að þau lög ættu helst að vera mjög skýr, skýrt hvaða efni væri átt við og ef upp kæmi að einhver efni væru talin hættuleg yrði tekið á þeim málum með lagasetningu en ekki eins og hér er gert ráð fyrir. Ég geri ráð fyrir að til séu skýringar á þessu og að hæstv. ráðherra geti þá útskýrt fyrir a.m.k. mér sem ekki átta mig alveg á því að þetta þurfi að gera með þessum hætti. Fram að þessum degi hefur dugað að hafa reglugerðarvald á bak við þessi mál.

Mér finnst eins og það að hverfa frá þeirri aðferð sem ég set út af fyrir sig ekki neitt út á kalli næstum á að menn setji lögin eins og reglugerðirnar voru settar áður, þ.e. með því að telja upp bönnuð efni og það komi þá í hlut Alþingis að gera það.

Ég geri ráð fyrir því að fá tækifæri til að inna eftir útskýringum á málinu í nefndinni líka og ætla þess vegna ekki að lengja umræðuna núna. Ég tel samt ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra um það sem ég hef hér nefnt.