Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:53:27 (5941)

2002-03-11 19:53:27# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um starfsfólk Hollustuverndar ríkisins, sem hefur mikinn áhuga á þessum eiturefnamálum og vinnur við þröngan kost. Húsnæðismál Hollustuverndar ríkisins eru í skoðun. Það voru settar til hliðar upphæðir til þeirra mála í fjárlögunum. Þar þarf meira til, en þetta er sem sagt í skoðun.

Það að bera við önnum. Maður er ekki að bera við önnum og það er ekki verið að sverta neitt þau mál. Það eru gífurlegar annir við úrskurði í kærumálum. Við erum að reyna að vinna þá vel og eðlilega. Stundum koma gögn seint inn til okkar og þá tefjast mál. Varðandi Reyðarálið, af því að sérstaklega er spurt um það, töldum við t.d. á fyrri stigum að við mundum geta klárað þann úrskurð um miðjan febrúar og miðuðum við þá dagsetningu. Síðan varð ljóst að við mundum ekki geta staðið við það þannig að núna stefnum við að því að klára þetta, vonandi fyrir miðjan mars.

Maður hefur brennt sig á að koma með einhverjar dagsetningar af því að svo dragast málin stundum en það er skoðun okkar að þrátt fyrir þessa fresti sem lagaramminn setur eru það auðvitað frestir sem við eigum að hafa til viðmiðunar. Okkur ber líka skylda til að fjalla eðlilega um málin og komast til botns í þeim, þannig að þess vegna stöndum við í þeim sporum að hafa ítrekað fallið á frestum og þetta er vaxandi vandamál. Maður spyr sig líka hvort eðlilegt sé að hafa mál í þessum farvegi yfirleitt. Maður hefur miklar efasemdir um það. Nú er nefnd að koma með tillögur varðandi endurskoðun á umhverfismatslögunum. Þannig getur vel verið að við förum í annað ferli sem er eðlilegra en það sem við sjáum í dag.