Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:55:37 (5942)

2002-03-11 19:55:37# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. ráðherra varðandi það að eðlilegt sé að endurskoða þessa lögbundnu fresti. Í öllu falli er það algjörlega óviðunandi sem hefur verið praktíserað, að svigrúmið skuli eingöngu vera ráðuneytisins og framkvæmdaraðila. Það eru ráðuneytið og framkvæmdaraðili, í þessi tilfelli Landsvirkjun, sem hafa tekið sér þá fresti sem þessir aðilar hafa talið sig þurfa. Eins og ég sagði áðan hefur Skipulagsstofnun ekki getað leyft sér að brjóta lögin að sama skapi. Hún hefur alltaf skilað af sér innan lögbundins frests.

Af því hæstv. ráðherra nefndi það hér, að við ættum von á þessum úrskurði um miðjan mars, eftir því sem hún vonaði, þá var það í lok nóvember sem frestur ráðuneytisins til að fjalla um kærurnar á Reyðarál rann út. Hæstv. ráðherra segist vera tilbúin til að skila úrskurðinum kannski um miðjan mars. Þetta er auðvitað ekki nógu gott.