Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:10:11 (5948)

2002-03-11 20:10:11# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:10]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið kynnt frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Ég tel að í þessu frv. sé flest til bóta miðað við núverandi rekstur lyfjaverslana. Það er verið að aðlaga lyfjalögin að þeim breytingum sem hafa orðið á rekstri lyfjaverslana. Hvort sem þær breytingar í sjálfu sér eru svo til bóta eða ekki þá verður löggjöfin að vera það skýr að fyllsta öryggis sé gætt hvað varðar afgreiðslu lyfja. Því verður ábyrgðin skýrari með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir í 2. gr. frv.

Það hefur orðið æ algengara, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, að einn lyfsöluleyfishafi reki margar lyfjaverslanir. Því verður auðvitað að gera hann ábyrgan. Í 2. gr. frv. stendur, með leyfi forseta:

,,Nú er lyfjabúð rekin af öðrum en lyfsöluleyfishafa og veitir þá ráðherra leyfi til rekstursins. Leyfishafi rekstrarleyfis er ásamt lyfsöluleyfishafa ábyrgur fyrir því að farið sé að lögum þessum.``

Hver rekstrarleyfishafi er því gerður ábyrgur. Þetta tel ég vera til bóta.

Hvað varðar 3. gr. frv. þá hefur verið vandkvæðum bundið að uppfylla þau skilyrði að ávallt séu tveir lyfjafræðingar að störfum. Það kemur til bæði vegna fjölda útsölustaða og ekki síður vegna þess að lyfjaverslanir hafa orðið lengur opið en áður, bæði á kvöldin og um helgar. Ég tel að allar undanþágur eigi að vera mjög takmarkaðar og tímabundnar til þess að varast það að rekstraraðilar gangi á lagið og reyni að komast hjá því að hafa tvo lyfjafræðinga. Ef við ætlum að gæta fyllsta öryggis þarf tvo lyfjafræðinga og þannig á það auðvitað að vera alls staðar þar sem hægt er að koma því við. Því verða allar undanþágur að vera mjög takmarkaðar.

Eins tek ég undir það að það mundi verða til bóta að beita dagsektum ef ekki er orðið við áminningu.

Mig langar til þess að benda á að í 28. gr. núgildandi laga um afgreiðslu lyfja, sem á nú að fara að gera breytingu við, er málsgrein sem hljóðar svo:

,,Ráðherra er heimilt að veita lyfjatækni takmarkaðan og staðbundinn afgreiðslurétt úr útibúi frá lyfjabúð enda sé einungis um staðlaðar pakkningar að ræða samkvæmt lista sem staðfestur er af Lyfjastofnun eftir tillögu héraðslæknis og lyfsala.``

Herra forseti. Nú liggur fyrir frv. um að leggja niður embætti héraðslækna og hér kemur enn og aftur ábending um að við skulum skoða það mál mjög vel vegna þess að héraðslæknar hafa, eins og orðið bendir til, víðara verksvið en yfirlæknar hverrar heilsugæslustöðvar fyrir sig. Ef við lítum á þetta út frá Reykjavík þá þarf skoða Reykjavík sem heild og eins ákveðin svæði úti á landi. Við þurfum að horfa á þetta í samhengi. Hér er vísað til héraðslæknanna og þetta er eitt af mörgu sem við ættum að skoða varðandi héraðslæknafrv.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Við förum vel yfir frv. í heilbr.- og trn. og skoðum það og ekki síður með tilliti til lyfjaverslana úti á landi og lyfjaafgreiðslu þar, þar sem oft hefur verið erfitt að ráða lyfjafræðinga, og með tilliti til þess að flestar pakkningar og merkingar eru orðnar þannig að það hefur verið, við getum sagt, öruggara að leyfa útibúum undanþágu frá ákvæðum um lyfjafræðinga við ákveðnar aðstæður eða við ákveðin skilyrði. En ég ítreka að allar slíkar undanþágur eiga að vera tímabundnar og algjör undantekning.