Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:22:26 (5950)

2002-03-11 20:22:26# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um frv. og góðar undirtektir við það. Í umræðunni var komið inn á nokkur atriði í 1. gr. frv. og hvað hún felur í sér. Því er til að svara að nokkuð hefur verið legið yfir þessu orðalagi. Orðalagið ,,að hafa áhrif á líkamsstarfsemi`` er mjög vítt og samkvæmt áliti færustu manna þykir orðalagið ,,að breyta líffærastarfsemi`` þrengra og gefa möguleika á að auglýsa ýmis náttúrulyf eða fæðubótarefni. Einstigið í orðavali er vandratað því að við viljum auðvitað ekki að ómarktækum fullyrðingum sé haldið fram í þessu efni. Hins vegar er ég viss um að hv. heilbr.- og trn. fer yfir þetta orðalag og ég tel að í þessari lagagrein verði að vanda mjög til.

Varðandi hlutverk héraðslækna, staðlaðar lyfjapakkningar og lyfjaafgreiðslu landsbyggðarinnar sem hefur komið hér til tals er til umræðu í heilbr.- og trn. frv. um héraðslækna sem ég efast ekki um að nefndin fer líka yfir og les saman við þetta. Hins vegar færist hlutverk héraðslækna til yfirlækna heilsugæslunnar eins og fram kom hjá hv. 5. þm. Austurl. Það er þá í rauninni hlutverk þeirra sem yfirtaka þetta hlutverk samkvæmt þeim frv. sem liggja fyrir. Ég hef hins vegar ekki upplýsingar um hve margar undanþágur hafa verið veittar en ég hef vitneskju um að afgreiðslu lyfja hefur verið breytt á landsbyggðinni þannig að þjónusta hefur í einstökum tilfellum verið minnkuð með samruna lyfjabúða, og lyf hafa verið afgreidd frá stærri lyfjaverslunum til smærri staða þar sem ekki hefur reynst mögulegt að halda opinni lyfjaafgreiðslu.

Varðandi þau ákvæði sem gilda um þetta eða eru sett fram um þetta í frv. er þarna tekin viss forskrift inn í lagatextann. Það er m.a. gert í þeim tilgangi að ráðherra hafi leiðsögn um þessi undanþáguákvæði, og ákvæðin um vald ráðherra í þessum efnum eru gerð skýrari og ótvíræð sem þau voru ekki. Ég tel auðvitað þörf á þessu undanþáguákvæði en tek alveg undir að þau ber að spara, og veita þau ekki nema full ástæða sé til. Megininntakið í frv. er að auka öryggi í lyfjaafgreiðslu, og frv. fjallar um að samræma lög um lyfjaafgreiðslu þeim breytingum sem orðið hafa í þessari verslun, og auka öryggið. Lyfjaafgreiðslan er auðvitað alvarlegt mál, það er vandasamt að höndla með þessa hluti og þar þarf að vera fullt öryggi.

Ég var spurður um ranga afgreiðslu lyfja, hve mikið hefði komið af kvörtunum um slíkt. Því er til að svara að ég hef ekki móttekið slíkar kvartanir þá mánuði sem ég hef verið í starfi og í viðræðum mínum við landlækni hefur þetta mál ekki komið sérstaklega upp. Hins vegar er þessi hætta fyrir hendi. Þetta er auðvitað hlutur sem verður að girða fyrir en ég er ekki þar með að segja að í þessum efnum sé neyðarástand. Menn skulu varast að draga of algildar ályktanir af orðalaginu sem er, og ég vil ekki taka undir það.

Varðandi þjónustuna í lyfjabúðum á höfuðborgarsvæðinu og þá staðreynd að lyfjabúðir eru lokaðar frá klukkan tólf á miðnætti til fimm, ef ég man rétt, höfum við auðvitað fylgst með því og rætt þessi mál. Ég tek undir að auðvitað þarf að fylgjast grannt með því að þessi þjónusta sé fyrir hendi. Hins vegar höfum við fengið þær upplýsingar að hún hafi verið afskaplega lítið notuð á þessum tíma, vægast sagt, frá klukkan tólf til fimm. Með því er ég samt ekki að segja að þessi þjónusta sé óþörf, síður en svo. Við verðum auðvitað að fylgjast mjög grannt með því og ég hef reyndar beðið um að fylgst sé með í þessum efnum.

Varðandi svo dagsektarákvæðin eru þau auðvitað bæði til þess að létta og þyngja. Verið er að bæta þarna inn úrræðum, t.d. til þess að þurfa ekki að loka ef hnökrarnir eru þess eðlis og til þess þá að hafa eitthvert áhrifameira tæki en áminningu. Þetta dagsektarákvæði vinnur í báðar áttir.

Ég held að ég hafi farið yfir þau atriði sem fram komu í ræðum hv. þingmanna en ég endurtek að heilbr.- og trn. fer auðvitað yfir þetta frv.