Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:31:03 (5951)

2002-03-11 20:31:03# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:31]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil aðeins segja um það að lyfjaverslunum hefur verið lokað hér frá miðnætti til fimm, að sú þjónusta hafði verið lítið notuð. En við skulum ekki gleyma því að þeir sem nota þá þjónustu á þeim tíma gera það yfirleitt vegna þess að það er mikil þörf á því. Þeir sem eru með fjölnota lyfseðla sækja lyf sín að deginum til. En það er yfirleitt vegna þess að upp koma bráðatilvik að þörf er á þjónustu lyfjaverslana á næturnar. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að sú þjónusta sé til staðar.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta frv., eins og lögin, miði að því að auka öryggi í lyfjaverslun landsmanna. Því er spurning mín til hæstv. ráðherra, þar sem hann veit dæmi þess að dregið hafi úr þjónustunni á landsbyggðinni undanfarin ár --- lyfjalögin höfðu það í för með sér m.a. --- hvort hæstv. ráðherra hafi í hyggju að auka þær öryggiskröfur sem gerðar eru vegna afgreiðslu á lyfjum sem á sér stað til dæmis í verslunum eða söluskálum þangað sem lyfin eru send frá lyfsölum til afgreiðslu, þ.e. í verslunum og söluskálum, geymd í pappakössum eða bréfpokum og afgreidd þar bara svona við afgreiðsluborðið um leið og bensínið eða matvaran, hvort ekki sé þörf á kröfum um auknum öryggi vegna þessa meðal annars.