Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:32:50 (5952)

2002-03-11 20:32:50# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykja þessar lýsingar á lyfjaverslun vera með nokkrum ólíkindum. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að fylgjast með og hafa eftirlit með afhendingu lyfja og hvaða aðili sem á í hlut. Ég trúi því nú ekki að þessi dæmi séu raunveruleg um að söluskálar séu að afhenda í rauninni lyf með bensíninu. Ég trúi því ekki. Það er þá verið að afgreiða pakka frá lyfjaverslunum. En það er alveg ljóst að ástæða er til þess að fylgjast mjög grannt með þessum viðskiptum. Ég hef reyndar ekki dæmi um þetta. Hins vegar held ég að þarna hljóti nú að vera um einhvers konar pakkaafgreiðslu að ræða, að menn séu ekki að telja pillur með bensíninu. En það er alveg sama. Ástæða er til þess að um þetta gildi mjög ákveðnar reglur og að Lyfjastofnun fari þá yfir það hvaða regla gildir um þetta. Ég er tilbúinn til þess að grennslast fyrir um það.