Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:11:26 (5960)

2002-03-11 21:11:26# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:11]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil aðeins ræða hvernig hæstv. forseti hefur hugsað sér að standa að frekari fundahöldum í kvöld og frekari meðferð þessa máls. Staðreyndin er sú að ég hefði helst viljað að þessari umræðu yrði frestað nema hæstv. ráðherrar, forsrh., fjmrh. og gjarnan einnig hæstv. samgrh., kæmu til umræðunnar.

Það er orðin ærin ástæða til þess að fá hér fram stefnu hæstv. ríkisstjórnar í málefnum ríkisfyrirtækja sem verið er að breyta í hlutafélög. Það er auðvitað ekki hægt að bjóða Alþingi að einstakir ráðherrar séu með hugmyndir um að færa eignarhaldið t.d. til fjmrh., eins og hæstv. samgrh. í sambandi við Landssímann. Ég held að dæmin sanni að ástæða sé til þess að fá einnig á hreint hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsi sér að fara almennt með stjórnir fyrirtækja sem settar eru yfir hlutafélagavædd eða einkavædd ríkisfyrirtæki. Þarf ekki að fá einhverja stefnu fram í þeim efnum? Hvernig verða þær í framtíðinni skipaðar? Hvað á að borga þeim fyrir lítilræðið að setjast í stjórnir fyrirtækja?

Herra forseti. Þessa hluti og fleiri hefði verið fróðlegt að ræða hér við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar. Þó þetta tiltekna mál sé á forræði hæstv. viðskrh. þá er þetta auðvitað hluti af heildarstefnu stjórnvalda í þessum efnum sem virðist vera í uppnámi svo ekki sé nú fastar að orði kveðið. Það er tæpast hægt að segja annað en að upplausn ríki í þessum efnum og síðustu sviptingar í málefnum Landssímans ættu náttúrlega að vera nægjanleg rök fyrir því að taka öll þessi mál til gagngerrar endurskoðunar eins og þetta er að birtast okkur.

Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Er slíkt forgangsmál að hamast á þessu máli hér í kvöld og fram á nótt að ekki megi koma því við að fresta umræðunni og hlutast til um það þegar henni verður svo fram haldið að þá verði viðstaddir þessir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar sem fara með þessi mál eða eðlilegt er að séu til svara, þ.e. hæstv. forsrh. vegna samræmingar þessara mála og stefnu ríkisstjórnarinnar og auðvitað kæmi hæstv. fjmrh. til greina, þá sem vörsluaðili eða forsvarsaðili eigna ríkisins sem breytt hefði verið í hlutafélög? Síðan hefur hæstv. samgrh. tjáð sig um þetta mál og væri nú ástæða til að fá hann hér til þings af þeim ástæðum og fleirum.

Herra forseti. Í reynd er því meginósk mín sú að umræðunni verði frestað. Ef því verður ekki við komið þá spyr ég hvort þessir hæstv. ráðherrar séu á lausu --- þeir eru kannski með auglýsta fundi einhvers staðar eins og fleiri --- og hvort þeir gætu þá komið því við að verða hér við umræðuna því ég hefði gjarnan viljað bíða með að halda seinni ræðu mína við þessa umræðu þangað til þeir væru komnir til fundar.