Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:17:07 (5963)

2002-03-11 21:17:07# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:17]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef í hyggju að flytja seinni ræðu mína við þessa umræðu. Ég hefði viljað fá að beina orðum mínum til hæstv. landbrh. því fátt snertir meir hinar dreifðu byggðir landsins og landbúnað vítt og breitt um landið en einmitt fyrirhuguð hlutafélagavæðing Rariks. Bændasamtökin hafa ítrekað ályktað um rafmagnsmál. Mér datt ekki annað í hug, virðulegi forseti, þar sem að hæstv. landbrh. ætlaði að mæla hér fyrir 13. og 14. dagskrármálinu, en að eðlilegt væri að bera fram þá ósk að hann yrði einnig við umræðuna um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

Ég fer þess á leit, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði frestað, tek undir ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að þessari umræðu verði frestað. Þetta mál er allt of stórt til þess að láta það bara leika hér í gegnum þingið.

Eins má draga í efa hvert sé umboð hæstv. iðnrh. því ég man ekki betur en hæstv. forsrh. hafi fyrstur nefnt að miklu réttara væri að fjmrh. færi með hlutabréfið í Símanum og hæstv. samgrh. þurfti síðan sjálfur að nefna það hér í ræðustól á hv. Alþingi. Hvaða umboð hefur hæstv. iðnrh. núna til að fara með þetta mál? Hefur það verið rætt í ríkisstjórninni? Mér er spurn. Alla vega væri eðlilegt að þetta væri rætt saman þannig að það væri þá alveg klárt að hæstv. ráðherra hefði umboð í þessu máli frá forsrh. sem virðist fara með öll þessi einkavæðingarmál.

Virðulegi forseti. Ég hafði ætlað mér að óska eftir því að hæstv. landbrh. yrði hér viðstaddur þannig að ég gæti spurt hæstv. ráðherra nokkurra spurninga um áhrif hlutafélagavæðingar og einkavæðingar Rariks á landbúnað í landinu og bændur. Ég hafði einmitt hugsað mér að óska eftir því að hann yrði hér þegar að hans málum kæmi samkvæmt boðaðri dagskrá.