Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:30:39 (5969)

2002-03-11 21:30:39# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:30]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka bara það sem ég lagði inn í þessa umræðu áðan, í 1. umr. er það eini möguleikinn til að ná fram þessum grundvallarviðhorfum. Umræðan um hlutafélög sem eru stofnuð utan um ríkisfyrirtæki hefur verið fyrirferðarmikil á þinginu. Ég held að það sé mikilvægt að í framhaldi af þeirri miklu umræðu liggi fyrir hvernig menn hyggjast taka á málunum.

Ég get alveg sagt fyrir mig að almennt er ég því fylgjandi að menn hugi að því að koma þessum málum í hlutafélagaform en það skiptir vitaskuld miklu ef það þýðir að möguleikar okkar, þingmanna, til að fylgjast með því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig eru þar með fyrir bí. Þess vegna skiptir miklu máli að forustumenn ríkisstjórnarinnar hverju sinni upplýsi okkur um þessa hluti. Þetta skiptir máli í því hvaða afstöðu menn hafa. Má reikna með því að hæstv. forsrh. komi fyrir iðnn. og gefi skýringarnar þar? Finnst mönnum það líklegt? Það er það vitaskuld ekki. Við skulum ekki tala eins og þessi mál séu þess eðlis að ekkert hafi gerst í allan vetur. Ýmislegt hefur gerst og ýmislegt breyst. Menn hafa lagt á þetta ríka áherslu. Því hefði ég talið eðlilegt að hæstv. ráðherrar væru viðstaddir. Skal ég svo sem ekki fjalla neitt sérstaklega um það hvort menn séu alltaf mættir og hvernig þau ósköp ganga fyrir sig á köflum. En það breytir ekki hinu að mjög rík efnisrök eru til þess að forustumaður ríkisstjórnarinnar sé viðstaddur þessa umræðu.

Ég held að upplýsingar séu alveg grundvallaratriði og geti skipt sköpum fyrir marga stjórnarandstæðinga hvort þeir hugsi sér að skoða það að vera þessu fylgjandi eður ei. Ekki nema hæstv. ráðherra ætli að gefa þá yfirlýsingu að öll ríkisstjórnarhjörðin hæstv. muni mæta á fund í iðnn. og útskýra þessi mál. Það væri fróðlegt að fá yfirlýsingu um það.