Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:33:06 (5971)

2002-03-11 21:33:06# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:33]

Jón Bjarnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það verði að ítreka og vekja athygli á að í dag voru haldnir tveir aðalfundir, aðalfundur hjá Íslandsbanka-FBA og aðalfundur Landssímans. Hvort tveggja eru fyrirtæki sem fóru í einkavæðingarferli eins og núna er verið að hefja með Rarik. Það væri fróðlegt og hreinlega nauðsynlegt að fá lýsingu frá hæstv. samgrh. og hæstv. forsrh. um andrúmsloftið og framvindu mála hjá þessum tveimur fyrirtækjum sem hafa verið einkavædd með þeim hætti áður en við höldum áfram á sömu braut með Rarik.

Ég tel að það eigi að staldra við. Svo stórar fréttir bárust af þessum tveimur fundum að ég tel fulla ástæðu til að staldra við í því ferli sem hér er verið að fara fram á. Ég tel að það eigi að stöðva umræðuna um einkavæðinguna á Rarik.

Ég vil þá líka beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort hann hafi látið kanna hvort ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu nærtækir til að koma inn í umræðurnar. Mér finnst hægt að gera þá kröfu til hæstv. forseta að það sé kannað. Að sjálfsögðu getur verið þannig ástatt um einstaka ráðherra að þeir komist ekki, séu t.d. veðurtepptir hér eða þar. En ég vil beina því til hæstv. forseta hvort ekki sé eðlileg krafa í svo stóru máli sem þessu að forsetinn verði við þeirri ósk og láti kanna hvort hæstv. ráðherrar geta komið eða ekki. Ég tel að þeir ættu að vera hér og óska eftir því að viðbrögð hæstv. forseta verði að grennslast fyrir um þetta.

Þetta er ekkert grínmál sem við erum að tala hér um. Staða þessa máls er í dag meira að segja önnur en hún var í gær eftir þessa tvo aðalfundi sem við höfum upplifað hér, aðalfund Íslandsbanka-FBA og Landssímans. Það er ástæða til að staldra hér við og fá greinargerð um stöðu málsins, stöðu einkavæðingarferlis þessarar ríkisstjórnar eins og það hefur birst í dag á aðalfundum þessara tveggja fyrirtækja. Það er virkilega brýnt að einstakir ráðherrar komi hér og skýri málin fyrir þingheimi.