Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 21:35:50 (5972)

2002-03-11 21:35:50# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., KolH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[21:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er rangt sem kom fram í orðum hæstv. forseta áðan að hér sé verið að kvarta undan því að nú sé kvöldfundur. Það er alls ekki rétt. Hér hafa þingmenn búið sig undir kvöldfund en hitt má í sjálfu sér gagnrýna, og það kannski harðlega, hvernig dagskránni er stillt upp í dag. Hæstv. forseti veit alveg eins vel og allir þeir sem í þessum sal eru að fjöldi þingmanna var á mælendaskrá í þessu máli, stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, og allir vissu það sem vita vildu að hér yrði löng og efnismikil umræða um þetta mál. Hvers vegna stýrir hæstv. forseti þá umræðunni á þessum nótum, að þetta mál er sett nánast aftast á dagskrána? Þegar ég gerði svo athugasemd við það áðan að tvö mál sem voru eignuð hæstv. landbrh. eru tekin út af dagskránni --- ég vek athygli hæstv. forseta á því að hæstv. landbrh. er búinn að auglýsa fund austur í sveitum --- er mér svarað í hálfgerðum skætingi út af og lítið gert með mína athugasemd.

Ég krefst þess, herra forseti, að mark sé tekið á framkomnum rökstuddum tillögum og ráðleggingum hv. þingmanna. Og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur í ræðu sinni lýst því afar skýrt hvernig öllu er steypt á stél í þessu máli. Auðvitað hefði málið sem gerir ráð fyrir gífurlegri uppstokkun og grundvallarbreytingu á raforkumálum og -markaði á Íslandi fyrst átt að koma til umfjöllunar þingsins. Auðvitað hefði átt að ræða það mál á undan þessu máli hér. Hv. þm. hafa lýst með rökum hvers vegna, og þess vegna er óþarfi hjá hæstv. forseta að gera lítið úr þeirri umræðu sem fer fram hér undir liðnum um fundarstjórn. Og hv. 1. þm. Vestf. á ekkert með það að koma í ræðustól og skamma hv. þingmenn fyrir að gera athugasemdir af þessu tagi, athugasemdir sem allar hafa verið vel rökstuddar og eru sannarlega skiljanlegar.

Það er niðurlægjandi hvernig hér er talað við okkur, hvernig dagskránni er raðað upp og að hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir situr hér og flissar og dæsir á ráðherrabekknum eins og hún vilji helst vera heima hjá sér en ekki hér. Því segi ég enn og aftur, herra forseti: Þessi umræða er eðlileg. (Gripið fram í.) Það sem er hins vegar óeðlilegt er hvernig málum er fyrir komið, það er óeðlilegt að hæstv. forseti skuli ekki hlusta á rökstuddar kröfur hv. þingmanna um að hér verði betri vinnubrögð viðhöfð.