Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:00:33 (5980)

2002-03-11 22:00:33# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá mér þegar því skaut upp í kolli mér áðan að hér færi fram ný stefnumótun. Ég tók eftir því fyrir nokkru síðan í dagblaði --- ég held það hafi verið í Morgunblaðinu --- að ríkisskattstjóri hafði ákvarðað það að sérfræðingar og aðrir slíkir skyldu minnst reikna sér 375 þús. kr. í laun á mánuði og þaðan af meira og upp í 500 þús. Ekki var sérstaklega skilgreint hvernig störfum þeirra væri að öðru leyti háttað.

Ég leit svo á að þar væri kannski kominn grunnur að nýrri launastefnu og þeir aðilar á vinnumarkaði sem að undanförnu hafa barist fyrir launum sínum gætu farið að líta á þessa stefnumörkun ríkisskattstjórans varðandi laun. Ég held að það sem við höfum upplifað í dag varðandi þessi mál sé bara enn eitt skrefið í átt að því að sannfæra menn um að ríkisstjórnin hafi mótað nýja launastefnu.