Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:20:21 (5989)

2002-03-11 22:20:21# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Svar hæstv. ráðherra varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar um eignarhaldið var að í þessu frv. væri gert ráð fyrir að iðnrh. færi með eignarhald fyrirtækisins og erum við þá auðvitað miklu nær.

Í öðru lagi þá mótmæli ég því að samanburður við málefni Landssíma Íslands hf. sé á nokkurn hátt óeðlilegur í þessu máli, en hæstv. ráðherra taldi að þar væri um aldeilis ótengd mál að ræða sem var helst á ráðherra að skilja að ekki væri viðeigandi að draga inn í þessa umræðu. Nú er það svo að Landssíminn er einmitt hlutafélag sem er nærfellt alfarið í eigu ríkisins, 95 eða 97% eða hvar það nú stendur eftir að almenningur hefur í stórum stíl skilað inn þeim hlut sem hann var plataður til að kaupa í haust.

Í greinargerð með þessu frv. er gefið undir fótinn með hlutaeinkavæðingu fyrirtækisins. Það er gert í 5. tölulið greinargerðar á bls. 5. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,... svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því.``

Á mannamáli þýðir þetta að þar með gæti komið upp nákvæmlega sama staða og nú er í Landssíma Íslands hf., að ríkið ætti fyrirtækið að langmestu leyti en að einhverjir meðeigendur væru komnir inn. Því er fullgilt að spyrja um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Varðandi lög um nýskipan orkumála og að það frv. skuli ekki vera komið fram hér þá bendi ég á að það er nú svo neyðarlegt að í athugasemd við 1. gr. frv. á bls. 5 er einmitt vitnað í almenn lög um skipulag raforkumála og hlutafélög. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu er ekki kveðið á um önnur atriði en nauðsynlegt er vegna stofnunar félagsins en gert er ráð fyrir að almenn lög um skipulag raforkumála og hlutafélög taki til þess, ...``

Sem sagt þau hin sömu lög og stendur núna til með að breyta með frv. sem er ókomið en ráðherra boðar. Er þá óeðlilegt að þingmenn geri athugasemdir við þessa röð mála? Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki getað verið óheppnari en að hafa einmitt þessa umfjöllun í greinargerð frv.