Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:29:48 (5994)

2002-03-11 22:29:48# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:29]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að vita að ekki skuli verða nýr skandall þegar skipað verður í stjórn Rariks með nýjum hætti. Ég sé ástæðu til þess að spyrja hverjir eigi Rarik. Ég held því ekki fram að það sé neitt sjálfkrafa svar að sveitarfélögin eigi að eiga í Rarik. Ég held líka að það verði að horfa á þetta allt saman í samhengi, þ.e. Rarik og Landsvirkjun, og fara yfir það hvort sveitarfélögin í landinu eigi að eignast einhvern hlut í þessum fyrirtækjum.

Hverjir verða á raforkumarkaðnum? Ég bið hæstv. ráðherra forláts ef hún hefur ekki skilið mig. Það sem ég átti við var þetta: Ef menn horfa framan í að sömu eigendur og eiga Landsvirkjun í dag verði á raforkumarkaðnum og að sömu eigendurnir eigi annað stærsta raforkufyrirtækið á svæðinu líka, þá held ég að sumum muni finnast hallast býsna mikið á og hafi áhuga á að vita hverjir aðrir muni taka þátt í samkeppninni.