Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:32:45 (5996)

2002-03-11 22:32:45# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki grein fyrir málum sem heyra undir aðra ráðherra. Og þar sem flokksbróðir hv. þm. sem talaði á föstudag, Ögmundur Jónasson, fór miklum orðum um það að ég sæti í þeirri ráðherranefnd sem fjallaði um málefni Landssímans er rétt að taka fram að það er ekki rétt. Ég hef aldrei setið neinn ráðherrafund sem fjallar um málefni Landssímans og það held ég að verði að koma fram þótt mér finnist það ekkert aðalatriði í þessu máli.

Pólitísk stefna já, og að hér sé um grunnfyrirtæki og grundvallarfyrirtæki að ræða --- ég er alveg sammála því að Rarik er mjög mikilvægt fyrirtæki sem annast dreifingu á rafmagni. Í hinu nýja umhverfi verður þetta fyrirtæki fyrst og fremst í einokunarrekstri, það verður ekki í samkeppnisrekstri. Þau fyrirtæki sem verða í þeim rekstri verða engin sérstök gróðafyrirtæki, ég held að allir geti gert sér grein fyrir því. Þetta verða fyrst og fremst þjónustufyrirtæki og gjaldskrá þeirra mun miðast við ákveðna arðsemi en henni verður býsna þröngur stakkur skorinn. Ég lít því á þetta fyrirtæki, í hvers eigu sem það verður til langrar framtíðar litið, fyrst og fremst sem þjónustufyrirtæki og það er ekki hægt að krefja það um neinar félagslegar aðgerðir í sjálfu sér og þess vegna eru þessar óarðbæru einingar teknar frá.

Ég endurtek að mér finnst hv. þingmenn gera óþarflega mikið úr því að þessi mál séu svo nátengd að það sé nánast ekki hægt að tala um þau hvert í sínu lagi. Öll munu þessi mál mætast fyrr en varir í iðnn. þar sem hv. þm. situr og þá verður ekki erfitt fyrir hann að púsla saman.