Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:37:31 (5999)

2002-03-11 22:37:31# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vegna síðustu orða hæstv. ráðherra sem hafa reyndar komið fram hjá henni fyrr í þessari umræðu langar mig að fara yfir það hvaða regla gildir um það hver fer með hlut ríkisins í hlutafélögum.

Hæstv. ráðherra virðist ekki vera ljóst að það er til heildarstefna miðað við það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan. Þá fullyrti hún að ekki væri til heildarstefna heldur væri þetta ,,bara svona``. Málið er hins vegar að til er reglugerð um Stjórnarráð Íslands frá árinu 1969 þar sem segir að fjmrn. fari með eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, og að það fari með fyrirsvar vegna þeirra, m.a. að því er tekur til ,,stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis``. Það er sem sé undantekning. Meginreglan er sú að fjmrn. fer með hlut ríkisins, og það er undantekning sem við erum að tala um hér. Þegar verið er að gera undantekningu er ekkert óeðlilegt að kallað sé eftir rökstuðningi fyrir því.

Ég mun koma frekar að þessu máli á eftir, herra forseti, en hef hugsað mér að fara yfir það mál sem hér liggur fyrir á þeim tíma sem mér er ætlaður til þessarar ræðu, þessa frv. um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

Hæstv. ráðherra fullyrti áðan að af því að þetta mál væri á forræði iðnrn. væri það ,,bara svona`` einangrað, væri hér bara eitt og sér, og helst mátti skilja að það væri fásinna af hálfu annarra hv. þm. að vera nokkuð að tengja þetta einhverju öðru sem væri að gerast, mundi gerast eða hefði gerst í þessum efnum. Þetta er auðvitað alveg fráleitur málflutningur, herra forseti, einfaldlega vegna þess að þótt ekki sé annað er a.m.k. á þremur stöðum í þessu frv. vísað til nýrra raforkulaga, a.m.k. á þremur stöðum sem segir okkur að þegar þetta frv. var smíðað voru menn sannarlega með hugann við það í hvaða umhverfi það fyrirtæki sem hér er verið að leggja drög að átti að starfa.

Hæstv. ráðherra þarf ekki heldur að vera undrandi á því þó að hv. alþingismenn dragi einhverjar ályktanir af því hvernig hæstv. ráðherrar hafa farið með það vald sem þeim hefur verið fengið með lögum hér á Alþingi, nú síðast hvernig hæstv. samgrh. hefur farið með vald sem honum var falið --- samkvæmt undantekningu frá meginreglu --- þegar honum sem samgrh. var falið að fara með hlut ríkisins í Landssímanum.

Það hefur reyndar komið fram að hæstv. samgrh. er ekki lengur sannfærður um að rétt sé að gera þessa undantekningu þegar hann á í hlut. Ég flutti frumvarp með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir tveimur árum þess efnis að á þessu yrði gerð breyting, þ.e. að meginreglan yrði látin gilda gagnvart Landssímanum og að hluturinn yrði hjá hæstv. fjmrh. eða í fjmrn. Sömuleiðis fluttum við sambærilegt frv. hvað varðaði bankana. Þessi frv. náðu ekki fram að ganga og hafa nú bæði verið endurflutt. Mér er mjög minnisstæð umræðan um það frv. sem laut að hlut ríkisins í Landssímanum vegna þess að hæstv. samgrh. tók virkan þátt í þeirri umræðu og varði það að bréfin hefðu verið skilin eftir í vörslu samgrn., en meginreglu ekki verið fylgt, varði það m.a. með því að til stæði að selja fyrirtækið. Það var á honum að skilja að bréfin mundu eiga lögheimili í samgrn. í tiltölulega stuttan tíma. Nú virðist hann hins vegar vera búinn að átta sig á að sá tími getur orðið mun lengri en nokkurn uggði, og hefur sjálfur sett inn í umræðuna að e.t.v. væri rétt að bréfin yrðu vistuð í fjmrn.

Auðvitað, herra forseti, er það hið rétta. Þannig á þetta að vera vegna þess að ef fagráðherra hefur metnað sem fagráðherra er hann fagráðherra allra fyrirtækja á markaðnum en lætur það ekki trufla samkeppnisstöðu þess fyrirtækis sem er í eigu ríkisins að bæði eignarhaldið og fagleg forsjá sé í höndum sama aðila.

Það hefur sannarlega truflað eins og kom strax fram um daginn þegar hæstv. samgrh. ræddi það að réttast væri að hlutabréfin væru vistuð hjá hæstv. fjmrh. Þá komu fram fulltrúar annarra símafyrirtækja og fögnuðu þessu vegna þess að þetta væri eðlilegt með tilliti til samkeppnisstöðu á markaði. Mér finnst því, herra forseti, mjög eðlilegt að það verði skoðað í hv. iðnn. hvort ekki sé rétt að gera breytingu á frv. hvað þetta varðar. Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra fullyrðir, að fyrir vorið komi hér frv. til nýrra raforkulaga, stefnum við inn á samkeppnismarkað og þá er eðlilegt að bréfin í Rarik hf. séu vistuð annars staðar en hjá fagráðherra.

Af því að ég hef nefnt aftur og aftur frv. til nýrra raforkulaga er þó rétt að gjalda varhuga við því hvort það frv. muni yfir höfuð koma inn í þingið á þessu vori. Það átti að koma hér fyrir lok október eins og menn muna ef þeir eru tilbúnir til að rifja upp fyrirheit hæstv. ráðherra. Það er búið að vera á leiðinni allan tímann og nú fullyrðir hæstv. ráðherra að það verði komið í næstu viku. (Gripið fram í.) Ég tek slíkum yfirlýsingum afar varlega, a.m.k. sýnist mér alveg morgunljóst að það frv. verði aldrei afgreitt á þessu vori. Þó að þetta frv. hafi farið með hraðferð til nefndar sl. vor er samt alveg ljóst að með málið þarf að vinna. Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það fer ekki óskoðað í gegnum þingið. Af því að það eru bara örfáar vikur eftir sýnast mér engar líkur á að það fái afgreiðslu. Það verður þá ekki núna en a.m.k. að ári má reikna með að það frv. geti orðið að lögum og hugsanlega verði þá komið það samkeppnisumhverfi sem kynnt var í fyrra en við vitum auðvitað ekki hvaða breytingum frv. hefur tekið frá því fyrir ári.

[22:45]

Það er alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn tók á einhverjum tíma ákvörðun um að sníða íslenskum raforkumarkaði sama stakk og raforkumarkaði er sniðinn í Evrópu, þó ekki sé um sameiginlegan markað að ræða, og við eigum eftir að sjá hvernig niðurstaðan hefur orðið hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi hvernig það verður nákvæmlega gert.

Herra forseti. Það kom fram hér hjá hæstv. ráðherra að það fyrirtæki sem við ræðum, þ.e. Rafmagnsveitur ríkisins sem eiga að verða Rarik hf., verði fyrst og fremst þjónustufyrirtæki. Nú er kannski erfitt að fullyrða nokkuð í þá veruna einfaldlega vegna þess að, ef ég hef skilið málið rétt, ekki er hvað síst verið að breyta fyrirtækinu í hlutafélag til þess að auðvelda því aðlögun að breyttum markaði, til þess að auðvelda því, eins og fram kemur hér í upptalningu á röksemdum fyrir þessari breytingu, að það geti sameinast öðrum fyrirtækjum, tekið við öðrum fyrirtækjum sem inn í það gætu runnið og þannig breytt um eðli. Ég mundi því ekki gefa mér það fyrir fram að þó fyrirtækið sé núna fyrst og fremst þjónustufyrirtæki að slíkt gæti ekki breyst. Það er alla vega alveg ljóst að það hlýtur að verða vilji til þess hjá þessu fyrirtæki eins og öðrum að búa sig undir breytt umhverfi með ýmsum hætti eins og við höfum horft á og auðvitað er það þegar farið að gerast. Það sjáum við af þeim sameiningum sem m.a. hafa átt sér stað á raforkumarkaði þar sem Rarik hefur ekki látið sitt eftir liggja.

Herra forseti. Mig langar aðeins að gera 6. gr. að umræðuefni hér, þar sem mér finnst sérkennilegt að segja stjórn hlutafélags fyrir um að gæta skuli almennra arðsemissjónarmiða. Ég velti því fyrir mér af hverju verið sé að breyta fyrirtækinu í hlutafélag ef það þarf að halda áfram að segja því fyrir um hluti eins og þessa. Er þetta ekki eitt af því sem liggur í augum uppi eða ætla menn að vera með fingurna svo ofan í ákvörðunum stjórnar að jafnvel það að gætt skuli almennra arðsemissjónarmiða þurfi að koma fram í lagatexta?

Síðan aðeins varðandi 7. gr., herra forseti. Ég velti fyrir mér því jafnvægi sem er á milli þeirra sem eiga að mæta á ársfund. Ég velti fyrir mér 5. tölulið um fulltrúa frá hverri héraðsnefnd. Ég þarf að fá upplýsingar um héraðsnefndir. Hvaða fyrirbæri eru það? Ég veit reyndar að sums staðar á landinu hafa sveitarfélög kosið að nýta sér til samstarfs það sem þau kalla héraðsnefndir. En héraðsnefndir eru ekki til samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Þær þurrkuðust út við síðustu breytingu. Það er bara á örfáum stöðum á landinu að sveitarfélög hafa kosið að kalla samstarfsvettvang sinn héraðsnefndir. Ég get ekki ímyndað mér að þær séu komnar með einhvern sess hér í þessu frv. Þetta hlýtur því að vera eitthvert allt annað fyrirbæri sem ég óska eftir skýringum á.

Ég spyr jafnframt: Er hugað að jafnvægi milli aðila þegar verið er að tína hér upp hverjir eigi að eiga seturétt á ársfundi? Í 6. tölulið 7. gr. segir:

,,6. Einn fulltrúi frá hverri bæjarstjórn þeirra kaupstaða á orkuveitusvæði hlutafélagsins sem ekki eru aðilar að héraðsnefndum.``

Herra forseti. Héraðsnefndir eru hér greinilega einhver apparöt sem skipta máli. En ég verð bara að viðurkenna vanþekkingu mína. Ég veit ekki hvaða fyrirbæri þetta eru og óska eftir skýringum. Vel kann að vera að hér sé fyllsta jafnræðis gætt og að þessar héraðsnefndir séu bara einhver stjórnunarapparöt í raforkugeiranum sem ég hef þó ekki rekist á enn.

Samkvæmt 8. gr. er hlutafélagið undanþegið tekjuskatti, útsvari, stimpilgjaldi og öðrum sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Við veltum því auðvitað fyrir okkur hversu lengi svo á að vera. Það er eitt af því sem tekið er fram annars staðar í frv. að sé til endurskoðunar vegna breytinga á raforkulögum. Þar er enn ein tilvísunin í frv. Það hlýtur að vera krafa þegar þessi fyrirtæki eru farin að keppa á markaði að þau borgi skatta og skyldur eins og önnur fyrirtæki. Annað væri mjög óeðlilegt, herra forseti.

Varðandi síðan stofnun hlutafélagsins, þá á að stofna það eigi síðar en 1. september 2002. Það á síðan að taka til starfa um áramótin. Ég vil spyrja um þennan tíma frá 1. september og til áramóta, þ.e. um réttarstöðu starfsmanna og stöðu fyrirtækisins almennt. Hver verður hún? Þetta verður eins konar bráðabirgðaástand sem þarna á að ríkja í einhverja mánuði á meðan verið er að koma þessari nýbreytni á. Verður réttarstaða starfsmanna á þessu tímabili eins og hún er í dag eða verður hún samkvæmt hlutafélagalögum?

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig samráði við starfsmenn var háttað þegar verið var að semja þetta frv. Það er alveg ljóst að starfsmenn Rariks hafa áhyggjur af stöðu sinni, ekki bara af því að verið er að breyta fyrirtækinu í hlutafélag heldur líka vegna þess að menn eiga allt eins von á því að þurfa að skipta fyrirtækinu upp með einhverjum hætti vegna nýrra raforkulaga og sjá ekki stöðu sína alveg fyrir. Sama á auðvitað við um önnur orkufyrirtæki í landinu. En spurningin er þessi: Hvernig samráð var haft við starfsmenn og var hægt að ganga að óskum þeirra varðandi tryggingar? Eru starfsmönnum sett einhver tímamörk varðandi það innan hvaða tíma þeir geta sagt upp og haldið sínum biðlaunarétti? Hvernig standa starfsmannamál svona umfram það sem fram kemur í 9. gr. og skýringum við hana sem eru fremur fátæklegar?

Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur hér aftur og aftur vikið að stöðu sveitarfélaganna, ekki bara varðandi Rarik heldur líka Landsvirkjun. Ég tek undir það sem fram hefur komið hjá honum um mikilvægi þess að ræða þessi mál í samhengi.

Það er mjög skiljanlegt að fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið að sér að greiða niður hinar óarðbæru einingar með hærri orkugjöldum, og tala þar sem fulltrúar þeirra notenda sem búa í viðkomandi sveitarfélögum og hafa orðið að bera hærri raforkugjöld en aðrir til þess að greiða niður hinar svokölluðu óarðbæru einingar, og það er ekkert óeðlilegt þó þeir kalli eftir því núna að þessi hlutur verði reiknaður til verðs og viðkomandi sveitarfélög eða þá íbúar í þeim sveitarfélögum eigi hluti í Rarik sem því svarar. Á sama hátt geta menn auðvitað gert ákveðið tilkall til Landsvirkjunar. Þessa hluti ber að skoða í samhengi. Það getur ekki verið ásættanlegt að hlutur einhverra fyrirtækja sé metinn en annarra ekki og að búið sé til eignarhald fyrir tvö af sveitarfélögunum í landinu út á hluti sem þeim eru reiknaðir til eignar á tilteknum tíma, en önnur sveitarfélög sem tekið hafa þátt í því að greiða, að mörgum finnst, hátt raforkuverð í gegnum Rarik til Landsvirkjunar skuli síðan vera reiknuð út með allt öðrum hætti.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra segist tilbúin til að endurskoða þessa hluti og ég fagna því og endurtek að hér er eitthvað sem menn eiga að ræða í samhengi.

Það er fjallað um þessar óarðbæru einingar í frv. og fram kemur að menn eru búnir að reikna sig niður á tiltekna upphæð, hálfan milljarð, minnir mig, árlega sem hljóti að verða að greiða vegna þeirra. Það segir okkur þá væntanlega hvaða niðurstöðu menn hafa komist að um raforkulögin vegna þess að það fer auðvitað dálítið eftir því hvernig menn skoða dreifikerfið, hvað hið almenna dreifikerfi, landskerfið, er þanið langt út eða reiknað langt út, hversu mikið þarf að borga vegna hinna svokölluðu óarðbæru eininga. Þessi tala segir mér a.m.k. að ekki hefur breyst mikið í þeim efnum frá því frv. var lagt fram liðið vor.

Herra forseti. Ég er ekki á móti hlutafélagaforminu. Það er svo langt í frá. Ég er sammála því sem hér segir um það, þ.e. að það er mun hentugra rekstrarform fyrir rekstur eins og þennan en það rekstrarform sem nú er notast við, jafnvel þó ríkissjóður sé einn, þegar um er að ræða samkeppnisrekstur af þessu tagi, ég tala nú ekki um ef menn ætla að halda áfram á þeirri braut sem ég er heldur ekki á móti, að sameina fyrirtæki og reyna að búa til samkeppnisforsendur hér á markaði.

Hins vegar þá er það því miður rétt sem fram hefur komið í þessari umræðu að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafa komið þess háttar óorði á hlutafjárvæðingar ríkisfyrirtækja með því hvernig þeir hafa gengið fram --- ég ætla ekki að vitna enn einu sinni í afrek hæstv. samgrh. --- með því að nýta sér til hins ýtrasta þá möguleika sem eru til leyndar varðandi það hvað er að gerast í þessum fyrirtækjum, að menn hljóta að gjalda varhug við þessum breytingum. Það er nefnilega hægt að fara þannig með ágæta hluti að þeir séu ekki lengur boðlegir.

Þess vegna liggur það bara þannig, herra forseti, að þó svo að við þingmenn Samfylkingarinnar séum í sjálfu sé ekki á móti hlutafélögum og viðurkennum gildi þess forms í atvinnurekstri, hljótum við að hugsa okkur um eins og málum er nú komið varðandi stuðning við þá breytingu sem hér er verið að leggja til.

Við hljótum að kalla eftir því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ítrekaði í umræðunni, þ.e. hvaða stefnu menn ætla að hafa í upplýsingagjöf varðandi þessi fyrirtæki og einnig hinu, hvort menn ætli sér ekki að vera hér með einhverjar samræmdar reglur.

Hæstv. ráðherra gerði lítið úr því áðan að það þyrftu að vera samræmdar reglur, menn væru bara eins og eylönd og tækju sínar ákvarðanir. En það er þannig að menn bera þetta eðlilega saman því að um samkynja hluti er að ræða.

Um daginn þegar við vorum að fjalla um virkjanafrv. gerði ég auðlindastefnu ríkisstjórnarinnar að umræðuefni og ekki að ósekju, herra forseti. Ég ætlast beinlínis til þess að ríkisstjórnin hafi einhverja slíka stefnu. Eins ætlumst við til þess að ríkisstjórnin hafi stefnu hvað það varðar hvernig farið er í að breyta félögum í eigu ríkisins í hlutafélög og hvernig síðan farið er með þann hlut. Og við ætlumst til þess að þegar vikið er frá meginlínu, sé það rökstutt frambærilega þannig að menn geti verið sáttir við þann rökstuðning, hann hafi efnisinnihald en sé ekki bara: Af því bara.