Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:57:47 (6000)

2002-03-11 22:57:47# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Áður en ég hef mál mitt væri kannski ágætt að fá svar við þeim spurningum sem voru bornar upp hér fyrr í kvöld þess efnis að fleiri hæstv. ráðherrar yrðu kallaðir til umræðunnar. Þess var farið á leit af mjög mörgum hv. þm. að það yrði gert. Engin svör hafa borist um það hvernig viðbrögð þeirra hafa verið þannig ég vildi beina því til hæstv. forseta hvort líklegt sé að hæstv. forsrh. og hæstv. samgrh. geti verið viðstaddir þessa umræðu.

(Forseti (HBl): Það frv. sem hér liggur fyrir er stjfrv. sem flutt er af hæstv. iðnrh. sem hér er stödd í þingsal og svarar greiðlega þeim fyrirspurnum sem fram koma.)

Virðulegi forseti. Verður þetta þá skilið þannig að ekki verði eftir því leitað af hæstv. forseta að þessir tilteknu hæstv. ráðherrar verði viðstaddir umræðuna og svari þeim spurningum sem hv. þingmenn leggja fyrir þá?

(Forseti (HBl): Eins og ég sagði þá heyrir þetta mál undir iðnrh. Hún er hér viðstödd við málið og svarar, eins og ég sagði, þeim spurningum sem fram koma og veitir þær upplýsingar sem ástæða er til.)

Virðulegi forseti. Þetta verður þá væntanlega skilið þannig að hæstv. forseti telur ekki ástæðu til þess að hafa þessa ráðherra viðstadda þrátt fyrir skýlaus ákvæði þingskapa um hverjir skuli sitja þingfundi og taka þar þátt í umræðu o.s.frv. Vissulega er það ekki að tilefnislausu að hv. þingmenn hafa óskað eftir þessu. Má til að mynda nefna orð hæstv. viðskrh. í andsvari áðan þegar hún var spurð að því hver stefnan væri að því er varðaði stjórnarlaun í fyrirtækjum. Þá svaraði hæstv. ráðherra því til að hvað sig varðaði þá væri hún dálítið nísk, hæstv. ráðherra, og að enginn skandall yrði þegar að því kæmi að taka um það ákvörðun hvaða laun yrðu greidd þeim sem sætu í stjórn.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það þarf ekkert hugmyndaflug til þess að túlka þau orð þannig að þær ákvarðanir sem voru teknar í dag hljóti að vera það viðmið sem um er talað. Ég hefði því haldið, virðulegi forseti, að mikilvægt væri að fá hæstv. samgrh. a.m.k. til þess að vera við umræðuna og þá ekki síst hæstv. forsrh. En hæstv. forseti hefur tekið þá ákvörðun að verða ekki við beiðni hv. þingmanna um að kalla þá til. Það liggur þá fyrir og gott er til þess að vita hvernig hæstv. forseti ætlar að stjórna þessum fundi.

[23:00]

Það mál sem hér liggur fyrir um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins ætti í eðli sínu að vera einfalt fyrir hv. þm. að taka afstöðu til. Eru menn fylgjandi því að rekstur fyrirtækja eins og Rafmagnsveitna ríkisins sé í hlutafélagaformi, fari að hlutafélagalögum og lúti þeim reglum sem um þau gilda? Í sjálfu sér ætti að vera mjög auðvelt að taka afstöðu til þess. Sú umræða hefur verið lengi við lýði og satt best að segja ættu flestir þingmenn að vera farnir að þekkja þá umræðu. Hér horfa bara hlutirnir allt öðruvísi við.

Í umræðum um hlutafélög og hlutafélagavæðingu og hvernig með þau hefur farið undanfarið hefur komið í ljós að það eru margar stefnur við lýði hjá hæstv. ráðherrum. --- Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að sýna þá lágmarkskurteisi, í ljósi þess að hún hefur tekið að sér að svara fyrir alla ráðherrana, að sitja hér í salnum á meðan umræða fer fram.

(Forseti (HBl): Ég hygg að hæstv. ráðherra heyri það sem sagt er þótt hún aðeins rétti úr sér, það skerpir eftirtektina.)

Já, fundarstjórn forseta, hún er eins og hún er.

Í umræðum undanfarið hefur afstaða hæstv. ráðherra til hlutafélagaformsins birst á margvíslegan hátt. Í fyrsta lagi hefur komið fram hjá hæstv. samgrh. að það sé ekkert að því, ekki nokkur skapaður hlutur, að hæstv. ráðherra sé að gera samninga út um hvippinn og hvappinn, fyrir utan hluthafafund, fyrir utan aðalfund, við einstaka aðila og einstaka stjórnarmenn. Menn hafa talið og sagt sem svo að í því felist ekkert lögbrot, ekki nokkurt.

Hæstv. forsrh. hefur síðan komið með nýja stefnu, aðra stefnu, sem er í þá veru að þetta sé aðeins formsatriði og skipti ekki miklu máli og ekki sé ástæða til að gera mikið með það.

Hæstv. viðskrh. og hæstv. iðnrh., sem í augnablikinu er sami einstaklingurinn, hefur sagt í umræðunni að að sjálfsögðu muni hún ekki koma að afskiptum af félaginu utan hluthafafundar og utan aðalfundar.

Hér liggja því fyrir þrjár mismunandi stefnur hjá þremur mismunandi hæstv. ráðherrum til þess hvernig menn hyggjast framkvæma vald sitt eftir að stofnunum eða fyrirtækjum í eigu ríkisins hefur verið breytt í hlutafélög. Svo segir hæstv. forseti hér í umræðunni um fundarstjórn að hæstv. viðskrh. geti svarað fyrir þetta allt saman. Er nema von að hv. þingmenn geri skýra kröfu til þess að þeir séu viðstaddir og dálítið sérstakt að hæstv. forseti skuli ekki verða við þeirri ósk þrátt fyrir skýlaus ákvæði þingskapa þess efnis að hæstv. ráðherrar eigi að vera viðstaddir þingfundi.

Nei, virðulegi forseti, þessi einfalda spurning sem við ættum að standa frammi fyrir er ekki svo einföld þegar nánar er að gáð, vegna þess að hver ráðherra fyrir sig praktíserar þessa hluti á sinn hátt.

Síðan hefur, sem er líka fróðlegt í þessu samhengi, virðulegi forseti, komið upp enn ein stefnan, sem er þá líklega fjórða stefnan, að því er lýtur að eignarhaldinu, að það skuli vera á höndum hæstv. fjmrh. Af hverju? Jú, vegna þess að í því tiltekna máli sem varðar hlutabréf Símans hefur komið fram að hæstv. samgrh. er að setja ýmsar reglur um það hvernig samkeppnisumhverfið verði á fjarskiptasviðinu. Og af því hæstv. ráðherra setur þær reglur, þá er óeðlilegt að hann fari einnig með eignarhaldið. Undir þau sjónarmið get ég tekið. En það er fróðlegt að taka þessi sjónarmið og skoða síðan verkefni hæstv. viðskrh. og líta hér aðeins í auglýsingu um staðfestingu forseta á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, því þar segir svo m.a. að viðskiptaráðuneytið fari með mál er varða t.d. samkeppnismál og óréttmæta viðskiptahætti.

Ef svo fer, sem að er stefnt, að hæstv. viðskrh. virði hlutafélagalögin, virði það hvernig eignarhaldið eigi að vera og hvernig fara eigi með eignarhaldið á milli hluthafafunda, á milli aðalfunda, og fyrirtækið taki þátt í þessum markaði á réttum forsendum, þá er þetta allt í lagi. En ef hæstv. ráðherra mun beita sér að hætti samgrh., þá er ljóst að Samkeppnisstofnun, sem heyrir undir hæstv. ráðherra, ætti að hafa eftirlit með þessu og því er um að ræða nákvæmlega sömu röksemdafærslu og hæstv. samgrh. beitti þegar hann setti fram þá hugmynd að hann vildi losna við Símann úr sinni vörslu og skyldi nú engan undra í ljósi allrar þeirrar umræðu sem fram hefur farið og þeirra axarskafta sem hæstv. ráðherra hefur orðið á í þeim efnum, því hæstv. viðskrh. er yfirmaður samkeppnismála á Íslandi.

Og gildir þá þessi röksemdafærsla bara við um hæstv. samgrh. af því hann er sérstaklega til þess fallinn að ráða ekki við að fara með þetta eignarhald? Eða er hæstv. viðskrh. betur til þess fallin? Er hún ólíklegri til þess að vera með skandala þegar verið er að taka ákvörðun um stjórnarlaun o.s.frv.?

Svo koma menn og segja hér í umræðunni að hæstv. viðskrh. ein og sér geti svarað fyrir alla þessa vitleysu. Þó hæstv. viðskrh. hafi um margt staðið sig ágætlega í starfi, þá er það bara einfaldlega svo að hún á ekki möguleika á að reyna að skýra þann óskapnað sem margir hæstv. ráðherrar hafa látið frá sér fara um þessi mál.

Virðulegi forseti. Það er a.m.k. eitt atriði sem ég vil gera að sérstöku umræðuefni í þessu tiltekna frv. en kannski aðeins áður en að því kemur, þá held ég sé alveg nauðsynlegt að áður en til þessa hlutafélags er stofnað, að fyrir liggi nákvæm greinargerð um það hverjar séu eigur fyrirtækisins, hvernig launakostnaði er háttað, hvaða sporslur er um að ræða o.s.frv., því það er eiginlega ekki mögulegt að samþykkja það að þetta frv. eða stofnun þessa hlutafélags gangi fram fyrr en allt liggur fyrir. Reynslan hefur kennt okkur að það er algerlega nauðsynlegt og það er nánast að mínu viti ótækt í ljósi frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessum hlutafélagamálum að ætlast til þess að hv. þingmenn taki afstöðu til frv. fyrr en þessi mál liggja fyrir.

Að sama skapi er algerlega ótækt að þetta mál fari til nefndar áður en fyrir liggur hvort stefna hæstv. forsrh. í hlutafélagamálum, stefna hæstv. samgrh. í hlutafélagamálum, eða stefna hæstv. viðskrh. í hlutafélagamálum sé ofan á í þessari ríkisstjórn, eða hvort þeir ætla að koma fyrir hv. iðnn. þegar málið kemur til umræðu þar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég er mjög ósáttur við það hvernig fundarstjórn forseta hefur verið á þessum fundi.

Ég hef gert að meginefni ræðu minnar það sem fram kemur í 1. tölulið á bls. 5, þ.e. um þá löggjöf þar sem er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda, hún er nú ekki betur skilgreind en svo að enginn veit á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessum málum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um 5. tölulið á bls. 5, en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Með því að breyta rekstrarformi Rafmagnsveitna ríkisins, svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir, er jafnframt opnað fyrir þann möguleika að aðrar orkuveitur geti gengið inn í hlutafélagið og orðið hluthafar í því. Með því gæti náðst aukin hagræðing í orkudreifingu.``

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort með þessu sé opnað fyrir það að hæstv. ráðherra og stjórn taki ein ákvörðun um slíka sameiningar eða hvort slíkt þurfi að koma fyrir Alþingi. Ákvörðun af þessum toga er mjög vandmeðfarin. Því með því að heimila samruna eða sameiningu og jafnvel það að ganga inn í einkarétt, þá er í mörgum tilvikum verið að afhenda tilteknar eignir. Þess vegna er mjög vandmeðfarið hvernig að þessu er staðið og ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún líti svo á að verði þetta frv. að lögum hafi hæstv. ráðherra sjálfdæmi um það og þá væntanlega stjórn fyrirtækisins hvort og hverjum fyrirtækið verði sameinað, eða hvort slíkt þurfi að koma fyrir þingið aftur. Því ekki má gleyma því að ríkið getur engar eignir látið af hendi nema lög standi þar til. Og hér duga því ekki orðin ein í greinargerð með frv. Ég held að sé mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að þetta liggi fyrir.

Það hefur reyndar komið fram í umræðunni að hæstv. ráðherra, þó það komi ekki skýrt fram í frv. sjálfu, hefur um það talað að líklegast sé að stjórnarmenn í fyrirtækinu eða félaginu verði fimm og naumt verði skömmtuð launin, ef marka má orð hæstv. ráðherra hér fyrr í kvöld.

Það er ekki nema von, virðulegi forseti, að hv. þingmenn staldri aðeins við og velti því fyrir sér þegar þeir taka afstöðu til þeirrar einföldu spurningar hvort breyta eigi fyrirtækinu í hlutafélag eða ekki, að menn hugleiði hvers konar hlutafélag er verið að búa til. Er verið að búa til félag sem hefur fyrst og fremst það hlutvert að koma í veg fyrir að þingið geti veitt það aðhald sem það á að veita? Er verið að búa til félag þar sem ráðherrar, eins og hæstv. samgrh. hefur praktíserað, ætla að skipta sér af stóru og smáu í félaginu frá upphafi, eða ætla menn að láta stjórn þess stjórna félaginu og láta félagið fara að lögum og reglum eins og til stendur? Eða er verið að búa til félag sem fer bil beggja eins og hæstv. forsrh. hefur fjallað um og sagt sem svo að það sé nú aðeins formsatriði per se hvort eftir þessum reglum sé farið eða ekki? Þessir hlutir þurfa að liggja fyrir áður en menn geta tekið afstöðu til þess hvort menn eru þessu fylgjandi eða ekki.

Ástæða fyrir því, virðulegi forseti, að ég geri þetta að umræðuefni hér er að ég er almennt þeirrar skoðunar að hlutafélagaformið sé heppilegra form en það form sem nú er. Hins vegar hefur allur þessi bægslagangur og öll sú vitleysa, ef svo má að orði komast, sem við höfum horft upp á undanfarnar vikur og mánuði, gert það að verkum að búið er að koma óorði á hlutafélagaformið.

Þess vegna er það alveg grundvallaratriði að því er mig varðar að þessir hlutir liggi mjög skýrt fyrir áður en gengið verður til lokaafgreiðslu málsins. En þangað til að því kemur hef ég alla fyrirvara um að hægt sé að styðja þetta nema skýlausar yfirlýsingar liggi fyrir af hálfu hæstv. ráðherra.