Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 23:15:23 (6001)

2002-03-11 23:15:23# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[23:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það hefur nú gengið á ýmsu í þessari umræðu í dag og það er að sönnu ekki undarlegt því hér ræðum við frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins og einmitt í dag hafa borist tíðindi af því hvernig hlutafélag í eigu ríkisins afgreiðir sín mál. Hv. þm. hafa hér fleiri en einn og fleiri en tveir lýst hneykslan sinni, reiði og sárum tilfinningum yfir því hvernig nú sé komið hjá Landssímanum hf., að stjórnarmenn þar skuli fá helmingshækkun launa sinna á aðalfundi í dag án þess að ráðherrar eða ráðamenn sjái nokkra ástæðu til þess að andæfa eða andmæla á nokkurn hátt slíku ráðslagi. Ráðslag af því tagi sem íslenska þjóðin horfði upp á í dag hjá Landssímanum hf. kemur auðvitað til með að verða viðhaft í hlutafélaginu sem stofna á um Rafmagnsveitur ríkisins. Jafnvel þó að hæstv. iðnrh. haldi því fram í umræðunni að hún sé nísk þá er alveg eðlilegt að spurt sé: Hvers eiga væntanlegir stjórnarmenn í hlutafélaginu sem hér er um fjallað að gjalda? Eiga þeir ekki að fá að sitja við sama borð og þeir sem sitja við borð allsnægtanna hjá Landssímanum hf.? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að réttlæta það að ólíkar reglur skuli gilda um stjórnarþóknanir í opinberum hlutafélögum, þ.e. hlutafélögum í eigu ríkisins? Á máli hæstv. ráðherrans var að skilja að hún ætlaði ekki að feta í fótspor þeirra sem ákvarðanir tóku um gífurlegar hækkanir á þóknunum til stjórnenda Símans.

Herra forseti. Þjóðin er bálreið yfir því hvernig ríkisstjórnin er að véla um þessi mál. Ríkisstjórnin leyfir sér stöðugt að tala um hlutafélagaformið sem svo opna og þægilega leið til þess að auka sveigjanleika og auka arðsemi, en það er ekki talað af virðingu til þjóðarinnar þegar við horfum upp á ráðslagið sem er viðhaft hjá fyrirtæki á borð við Landssímann hf.

Ekki er óeðlilegt þó að hér komi fram spurningar til hæstv. ráðherra um hvers sé að vænta í þessum efnum. Eigum við að búast við því í náinni framtíð að sett verði sérstök lög um hlutafélög í eigu hins opinbera? Eigum við að búast við því að slík lög verði á sömu nótum og sambærileg lög í nágrannalöndum okkar? Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að hlutafélög í opinberri eigu á Norðurlöndunum heyra á sama hátt undir upplýsingalög og opinberar stofnanir. En það hafa ekki þau hlutafélög sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur verið að stofna síðan 1991 í eigu hins opinbera gert hér á Íslandi. Þau heyra ekki undir upplýsingalög. Og það er í sjálfu sér skandall. Það er skandall að hér skulum við vera fengin til að ræða þessi mál, stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um stefnumótun eða framtíðarhugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um hlutafélög í eigu hins opinbera. Hvernig verður farið með upplýsingar í þeim fyrirtækjum í náinni framtíð? Ætlar hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir því að upplýsingalög gildi um þær stofnanir eða er henni bara alveg sama þó slíkt sé ekki?

Herra forseti. Annað sem gagnrýnt hefur verið í þessari umræðu og ekki að ófyrirsynju, er hið stóra mál sem kynnt var í þinginu síðasta vor og aldrei var talað fyrir, þ.e. frv. til raforkulaga. Það er að sönnu til í þingmálsformi og hv. þingmenn hafa að sönnu haft tækifæri til að kynna sér það. En hæstv. ráðherra hefur ekkert sagt í þessari umræðu um það á hverju stendur. Hvaða breytinga er að vænta á því frv. þegar það kemur hérna fram vonandi, í næstu viku trúlega eftir því sem hæstv. ráðherra sagði áðan? Það er auðvitað alveg ljóst að ástæðan fyrir því að það frv. er ekki komið fram enn, er að um það hafa staðið gífurlegar deilur.

Í orkugeiranum hafa verið miklar vangaveltur og deilur um frv. sem lagt var hérna fram í fyrravor. En það hefur ekki verið andað yfir okkur einu orði um hverra breytinga við megum vænta. Því er ekki sanngjarnt af hæstv. ráðherra að ætlast til þess að þingmenn í þessari umræðu taki mið af frv. sem verður lagt hér fyrir einhvern tíma og einhvern tíma, svo og svo mikið breytt. Við getum ekki í þessari umræðu tekið mið af því plaggi sem lagt var fram síðasta vor því ef það væri hægt þá væri þetta plagg á borðum þingmanna núna. En auðvitað er öllum kunnugt um að svo er ekki.

Herra forseti. Sú þjónusta sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa staðið fyrir að veita hér á landi heyrir til grunnþjónustu. Þess vegna er það algerlega forkastanlegt þegar lagt er fram hér frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveiturnar að ekki skuli vera orð um þjónustukröfu þessa væntanlega fyrirtækis, ekki orð. Það lýsir trúlega tilfinningum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. iðnrh. til hlutverksins sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa gegnt til þessa. Þær hafa verið einn af máttarstólpum lífs í þessu landi, alveg eins og Landssíminn var til skamms tíma, og er auðvitað enn og á að vera. Það er ekki hæstv. ráðherra til fyrirmyndar, það er ekki góður vitnisburður fyrir ríkisstjórnina, að hér skuli lagt fram frv. sem hefur að geyma arðsemiskröfu --- ekki vantar það. Arðsemiskrafan er alveg á sínum stað í 6. gr. --- en ekki orð um þjónustukröfu, ekki orð.

Ef við förum að fabúlera með væntanlegar breytingar á raforkumarkaði hér úr ræðustóli hafandi ekkert frv. þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin virðist ætla að sniðganga þá sjálfsögðu skyldu að gera þær langtímaáætlanir sem nauðsynlegt er að gera til þess að af þeim grundvallarbreytingum á raforkumarkaði geti orðið. Ég vil vitna hér, herra forseti, máli mínu til stuðnings í texta till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála sem lögð var fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi, sennilega á árinu 1998 frekar en 1997. Í nál. meiri hluta iðnn. með þessari þáltill. kemur fram varðandi tímaáætlun og framgang þeirra verkefna sem iðnrh. yrðu falin með þeirri tillögu sem þarna var til umfjöllunar, en var reyndar, eins og hér hefur komið fram, aldrei samþykkt, að hann taldi eðlilegt að ótal viðmiðanir yrðu hafðar í undirbúningi og undanfara málsins. Og nú er tilefni, herra forseti, til þess að spyrja hæstv. ráðherra nánar út í þann undirbúning sem hefur verið unninn eða maður skyldi ætla að hafi verið unninn eftir því sem meiri hluti iðnn. óskaði eftir á sínum tíma í öllu falli. Vil ég í því sambandi fá að vitna í þetta nál. frá 17. apríl 1998, með leyfi forseta:

,,Hvað varðar tímaáætlun um framgang þeirra verkefna sem iðnaðarráðherra yrðu falin með samþykkt þessarar tillögu telur meiri hlutinn eðlilegt að eftirfarandi viðmiðanir verði hafðar:

1998. Vinnsla, flutningur, dreifing og sala verði aðgreind í bókhaldi og reikningum raforkufyrirtækja.

Hafin verði könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum breytts fyrirkomulags á flutningi raforku um meginflutningskerfið.

Hafin verði hagkvæmnisathugun á lagningu sæstrengs til Evrópu.

Frumvarp til raforkulaga verði lagt fyrir Alþingi.

Samkeppni verði um orkuvinnslu og sölu til einstakra endanlegra notenda sem kaupa meira en 50 GWh á ári.``

Herra forseti. Þetta eru atriðin sem hv. iðnn. vildi að yrðu framkvæmd 1998 áður en til þeirra breytinga kæmi sem frelsi á raforkumarkaði hefði í för með sér, að sjálfsögðu. En hér hefur sennilega fátt verið gert. Fróðlegt væri þó að fá að heyra frá hæstv. iðnrh. hvað af þessum athugunum liggur nú fyrir og hverjar þessara kannana hafa verið gerðar.

Svo ég vitni áfram í þetta sama nál., með leyfi forseta, þá gerði hv. iðnn. ráð fyrir því að árið 2000 lægi fyrir úttekt um tæknilegar og fjárhagslegar forsendur breytts fyrirkomulags á flutningi raforku um meginflutningskerfið.

,,Hafnar verði viðræður milli eigenda flutningsmannvirkja sem í hlut eiga.

Stofnað verði sérstakt fyrirtæki um meginflutningskerfið, Landsnet, með dreifðu eignarhaldi orkuvinnslufyrirtækja, dreifiveitna, ríkisins og annarra fjárfesta.``

Herra forseti. Það er auðvitað eðlilegt að spyrja hvort eitthvað af þessu liggi fyrir og hvort ekki sé eðlilegt, eins og iðnn. taldi árið 1998, að undirbúningurinn sé eins og hér er lýst en einkennist ekki af þeim flumbrugangi sem hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir hefur á málum og við höfum öll orðið vitni að hér.

Svo ég vitni áfram, með leyfi forseta, í nál. iðnn. frá apríl 1998 þá gerði hún ráð fyrir að á árinu 2001 yrði landsnet tekið til starfa og að innleiddar yrðu breytingar á fyrirkomulagi raforkuflutnings.

,,Viðeigandi breytingar verði gerðar á sameignarsamningi um Landsvirkjun.

Raforkufyrirtækjum sem ríkið á eignarhlut í verði breytt í hlutafélög.``

Þetta átti að gera á þremur árum eftir að gert var ráð fyrir að þáltill. yrði samþykkt. Allur þessi undirbúningur hefur verið í fullkomnu skötulíki hjá hæstv. ríkisstjórn.

Enn les ég, hæstv. forseti, úr nál. meiri hluta iðnn. sem gerði ráð fyrir að árið 2002 yrði samkeppni hafin til að mæta aukinni raforkuþörf til almenningsnota og í atvinnustarfsemi og að árið 2003 yrði komið á markaði með raforku.

Nefndin gerði ráð fyrir því að niðurstöður yrðu að liggja fyrir eins fljótt og mögulegt væri um tæknilega, fjárhagslega og umhverfislega kosti og galla varðandi tengingu íslenska raforkukerfisins við Evrópu. Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að grunnur tilskipunarinnar frá Evrópusambandinu er auðvitað sá að orkunotendur hafi eitthvert val um orkusala.

Af því það var rætt fyrr í dag, herra forseti, að Íslendingar væru nú bara 280 þúsund, eins og hæstv. umhvrh. benti á, þá má kannski spyrja hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur hvort hún sjái fyrir sér að hinir 280 þúsund einstaklingar á Íslandi komi í alvöru til með að eiga eitthvert val um orkusala. Hvenær sér hæstv. ráðherra fyrir sér að íslenskir raforkunotendur geti keypt sér græna orku frá Þýskalandi, vindorku frá Danmörku eða lífmassaorku frá Bretlandi? Það er á svona hlutum sem tilskipun Evrópusambandsins byggir á, þ.e. að neytendur hafi raunhæft val.

Herra forseti. Ég fullyrði út frá því sem ég hef kynnt mér þessi mál að ég sé ekki að heil brú sé í því fyrir hina 280 þúsund manna þjóð sem býr á Íslandi að innleiða þessa tilskipun. Ég held að hæstv. ríkisstjórn sé á mjög hálum ís við þessa innleiðingu enda kemur á daginn, og það sjá allir sem sjá vilja, hversu illa hæstv. ríkisstjórn gengur það ætlunarverk sitt.

[23:30]

Herra forseti. Eitt af því sem maður skyldi ætla að gera þyrfti áður en til þeirra róttæku breytinga kemur sem hér eru í vændum, þ.e. að hrófla við rekstrarformi svo öflugs fyrirtækis sem Rafmagnsveitur ríkisins eru og koma á frjálsum markaði með orkusölu á Íslandi, er orkunýtingaráætlun. Það er ekkert óeðlilegt að krefja hæstv. ríkisstjórn um orkunýtingaráætlun og það er ekkert óeðlilegt að krefja hæstv. ríkisstjórn um orkusparnaðaráætlun sem hún hefur samkvæmt eigin plöggum gefið til kynna að hún ætli sér að búa til, leggja fram og fylgja.

Hvernig er ástatt í þeim málum, herra forseti? Enn er ekki til það land á byggðu bóli þar sem hver einstaklingur eyðir jafnmikilli eða meiri orku en hver Íslendingur gerir. Hefur hæstv. iðnrh. engar áhyggjur af því? Nei, greinilega ekki. Því það er alveg ljóst að því meiri orka sem framleidd er, því meiri orku vill hún að hver einstaklingur á Íslandi nýti og noti. En hverju eigum við þá að trúa varðandi orð ríkisstjórnarinnar um orkusparnaðaráætlunina? Hvenær ætlar hæstv. iðnrh. að sjá til þess að þjóðin fái rammaáætlun um vatnsafl og jarðvarma? Verður það áður en þær gífurlegu ákvarðanir sem fyrir ríkisstjórninni liggja verða teknar, um risavirkjanir á borð við Kárahnjúkavirkjun og að ég tali nú ekki um aðrar virkjanir sem greinilega eru í farvatninu hjá hæstv. ráðherra og lesa má um í því þingmáli sem hér hefur verið fjallað um varðandi virkjun Jökulsár á Dal og Jökulsár í Fljótsdal? Í grg. með því frv. kemur fram að hæstv. iðnrh. er á fullri ferð, fullri siglingu, með virkjanaplön upp á hálendinu á mjög viðkvæmum svæðum, ótal svæðum, kannski bara öllum viðkvæmustu svæðum á miðhálendi Íslands. Hún andar hins vegar ekki út úr sér einu orði um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Hæstv. fyrrv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, leyfði sér að halda því fram í ræðum að sú rammaáætlun kæmi til með að hafa forgang, kæmi til með að njóta fyrirgreiðslu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin ætlaði sér að sýna metnað í gerð þeirrar áætlunar. Hæstv. núv. iðnrh. hefur gert lítið úr þeim orðum sem sögð voru þegar þessari rammaáætlunarhugmynd var komið á koppinn.

Herra forseti. Þessari ríkisstjórn virðist gjörsamlega fyrirmunað að gera áætlanir til langs tíma. Það er í sjálfu sér móðgun við þingheim og þjóðina að leiða okkur inn í þessa umræðu hér án þess að fyrir liggi þær áætlanir sem ríkisstjórnin hefur fyrir löngu boðað að gera eigi.

Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera með hina eiginlegu hagsmuni landsbyggðarinnar og þjóðarinnar sem er að reyna eftir fremsta megni að halda landinu í byggð? Sér hæstv. ráðherra ekki fáránleikann í að ekkert orkusölufyrirtæki verður neitt rosalega áfjáð í, enda koma þau ekki til með að græða neitt á því, að koma þriggja fasa rafmagni til hinna strjálu byggða eða að sjá um úrbætur og öruggan markað í dreifbýlinu?

Það fer að síga á seinni hluta ræðu minnar, hæstv. forseti, en ég get samt ekki látið hjá líða að gera að umtalsefni orð hæstv. ráðherra sem féllu áðan í andsvari við hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson þar sem ráðherra hélt því fram að hún væri ekki í neinni einkavæðingarnefnd. Ég hlustaði á þegar fyrri hluti þessarar umræðu fór fram og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði hér að umtalsefni einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar og bað um skýringar hæstv. ráðherra sem sitja í ráðherranefnd um einkavæðingu á því á hvernig einkavæðingarnefndin hefði staðið ábyrg gerða sinna.

Málum er þannig háttað, alveg sama hvað hæstv. iðnrh. segir --- ég trúi því að henni hafi verið tilkynnt um það, við getum lesið um það í skýrslum hér, hv. þingmenn --- að í erindisbréfi nefndarmanna í einkavæðingarnefnd er þess klárlega getið að einkavæðingarnefndinni beri að standa ráðherranefnd um einkavæðingu skil á reikningsskap gjörða sinna og ákvarðana. Í ráðherranefnd um einkavæðingu sitja, samkvæmt þeim skýrslum sem hv. þingmönnum hafa verið birtar: hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. iðn.- og viðskrh. Ég sé ekki hvernig hæstv. iðnrh. ætlar að sverja af sér að hún sitji í þeirri nefnd og beri þar af leiðandi talsverða ábyrgð á vilja ríkisstjórnarinnar til að einkavæða. Sannleikurinn er einmitt sá að við sem hér sitjum og höfum tekið þátt í þessari umræðu, trúum því ekki að hlutafélagið sem hér er verið að stofna verði ekki selt innan skamms.