Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 23:56:06 (6003)

2002-03-11 23:56:06# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[23:56]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þó að hæstv. iðnrh. hafi ekki farið yfir það hvaða heildarstefnu ríkisstjórnin hefur í þessu máli þá sé ég ástæðu til þess að fara um það nokkrum orðum hvað ég tel mikilvægt að slík heildarstefna verði til. Ég get ekki séð annað en menn verði að tengja umræðuna um Rarik við umræðuna um önnur orkufyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaganna.

Mig langar til að nefna að ég bar fram fyrirspurn til hæstv. iðnrh. á síðasta Alþingi og í svörum við þeim spurningum sem þar voru lagðar fram kemur ýmislegt athyglisvert í ljós, m.a. að eignarhlutur ríkisins og þeirra sveitarfélaga sem eiga í Landsvirkjun er í upphafi reiknaður út frá því að ríkið hafi lagt fram eignarhluti í Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum. Þau eru greinilega reiknuð inn í þetta líka, þ.e. vatnsréttindi í Þjórsá og undirbúningskostnaður vegna Búrfellsvirkjunar. Reykjavíkurborg hafði lagt fram eignarhlut í Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum og einhverfilsstöð borgarinnar við Ell\-iðaár og spennistöð ásamt tilheyrandi lóðum. Síðan kemur fram að þeir aðilar sem eiga í Landsvirkjun hafi lagt fram fé á árunum frá 1966 og til 1980 til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Ég hef síðan undir höndum skýrslu þar sem fram kemur að árið 1995 hafi framreiknað framlagt eigið fé eignaraðilanna að Landsvirkjun verið um 14 milljarðar kr. Nú veit ég ekki hve hátt Landsvirkjun er metin í dag, en þykist þó vita að þar sé um að ræða æði miklu hærri fjárhæðir en þessa. Það liggur náttúrlega í augum uppi að þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, hefur haft einokunaraðstöðu til þess að nýta orkulindir þjóðarinnar og bæði skyldur og einkarétt til þess að virkja og gera samninga við stóriðjufyrirtæki, virkja fyrir slíka raforkusölu og skaffa raforku til landskerfisins í heild. Þetta fyrirtæki hefur síðan eignast mjög miklar eignir á okkar mælikvarða á þessari aðstöðu.

Það er gjörsamlega fráleitt að menn ætli hér að fara í gegnum umræðu um að búa til samkeppnisaðstöðu á sviði raforkuframleiðslu og sölu í þessu landi öðruvísi en fyrir liggi hvað þeir ætli að gera með þessa hluti. Það er útilokað. Svo er það ekki heldur þannig að þau fyrirtæki sem hér um ræðir hafi ekki fengið til sín arð af þessu fyrirtæki, Landsvirkjun. Ég ætla að nefna hér hvað kom fram í svari sem ég fékk frá hæstv. iðnrh. þegar spurt var, með leyfi forseta:

,,Hvaða greiðslur hefur Landsvirkjun innt af hendi til eignaraðila? Tegundir greiðslna og upphæðir á núvirði óskast tilgreindar.``

Þetta er fyrirspurn frá því í fyrra.

Í svarinu kemur fram m.a.:

,,Landsvirkjun greiddi eigendum sínum árlega arð á árunum 1986--1991 og nema þær greiðslur á verðlagi í september sl. [þ.e. í fyrra] 675 millj. kr. Í samræmi við eigendasamkomulag frá 28. október 1996 skal eigendum reiknaður 5,5% árlegur arður af eigendaframlögum. Útreiknaður arður hefur á árunum 1997--2000 numið 3.884 millj. kr. Af þessari fjárhæð hafa verið greiddar út 959 millj. kr. en ógreiddum arði að fjárhæð 2.925 millj. kr. hefur verið bætt við eigendaframlög. Samtals nemur því útgreiddur arður á árunum 1986--2000 1.634 millj. kr.``

Síðan hefur Landsvirkjun greitt eigendum sínum líka aðrar greiðslur. Á árunum 1988--2000 var greitt í ábyrgðargjald vegna þeirra lána sem eigendurnir eru í ábyrgð fyrir. Samtals voru 1,5 milljarðar kr. greiddir í þetta ábyrgðargjald. Þó svo að eignaraðilarnir hafi lagt fram eigið fé þá hafa þeir því líka fengið greiddan arð og sveitarfélögin sem eiga hlut í Landsvirkjun hafa fengið ábyrgðargjald í sinn hlut. Skyldi nú einhver efast um að ábyrgð á þessum lánum og kjör þessara lána hafi fyrst og fremst ráðist af því að ábyrgðir ríkisins væru þarna á bak við en ekki sveitarfélaganna?

Það að eigendaframlögin skuli ekki vera stærri hlutur af hinni raunverulegu eign Landsvirkjunar hlýtur að kalla á að menn fari nákvæmlega yfir þetta mál í heild og taki afstöðu til þess hvernig eigi að fara með þær eignir sem Landsvirkjun er. Ég tel ástæðu til þess að tala um þetta í þessu samhengi hér vegna þess að það er mín skoðun að það eigi að meta hvernig eignir Landsvirkjunar hafa orðið til og að það eigi að rétta þessa hluti af gagnvart öðrum sveitarfélögum en þeim sem eiga í Landsvirkjun. Það fyrirkomulag sem þarna er til staðar er vitaskuld óboðlegt. Því þarf að breyta og það þarf líka að koma til móts við þau sveitarfélög sem ekki tóku þátt í þessu. Að mínu viti þarf þetta að liggja fyrir áður en menn taka afstöðu til þess hvernig eigi að haga eignarhaldi í Rarik. Ef bæði þessi fyrirtæki verða að hlutafélögum þá á að mínu viti að skoða vandlega hvort ekki eigi að skipta hlutafjáreign í þeim einhvern veginn upp í samræmi við útreikning sem byggðist á því að rétta eignarhaldið af gagnvart öðrum sveitarfélögum vegna þess að það er gjörsamlega fráleitt að einungis þau tvö sveitarfélög sem hafa átt aðild að Landsvirkjun eigi að sitja ein að því að eignast hlut sem hefur orðið til vegna aðgangs að þeirri auðlind sem þarna um ræðir og þeirrar einokunaraðstöðu og séraðstöðu sem Landsvirkjun hefur haft til þess að þjónusta raforkumarkaðinn í landinu.

Hæstv. forseti. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að ég tel óeðlilegt að ræða þessi mál öðruvísi en að stefnumörkun ríkisstjórnarflokkanna í þessum efnum komi fram og að gerð verði skýr grein fyrir henni. Mér finnst vanta æðimikið upp á að það hafi gerst. Hér hefur í raun ekki farið fram nein umræða um þessi atriði. En mér finnst þau svo mikilvæg í þessu máli að útilokað sé að taka afstöðu til hlutafélagsins sem hér á að taka afstöðu til, öðruvísi en að ræða þessi mál í samhengi.