Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:34:18 (6006)

2002-03-12 13:34:18# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef aflað mér upplýsinga um stöðu þessa máls. Í síðustu viku áttu embættismenn félmrn. og forsvarsmenn þess fund með Greiningar- og ráðgjafarstöðinni og fóru yfir rekstraráætlun hennar. Samkvæmt henni var reiknað með skerðingu á þjónustu við greiningu á sex ára börnum og eldri. Að mati fulltrúa Greiningarstöðvarinnar var talið að slík sparnaðaraðgerð hefði í för með sér um 10 millj. kr. útgjaldalækkun.

Farið var rækilega yfir rekstraráætlun stofnunarinnar á þessum fundi og þar kom fram vilji félmrn. til að reyna að leysa rekstrarvanda stöðvarinnar. Lagt var til að hætt yrði við þessa skerðingu á þjónustu og félmrn. mundi vinna að því að finna lausn á þessum rekstrarvanda með einhverjum hætti. Ég býst við að ráðuneytið muni leita eftir viðbótarheimild í fjárlögum til að leysa þennan vanda en ef hún fæst ekki reyni það aðrar leiðir í málinu. Þetta er sú staða sem málið er í nú. Ég tek undir að staðan sem upp er komin þarfnast lausnar.