Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:38:36 (6008)

2002-03-12 13:38:36# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli sem við höfum mjög oft tekið upp í sölum Alþingis. Vandinn byrjaði í raun meðan barna- og unglingageðdeild sinnti hluta af þeirri þjónustu sem Greiningarstöðin veitir í dag. Barna- og unglingadeildin hafði einhverf börn á sinni könnu á sínum tíma. Þá varð barna- og unglingadeild að hætta að veita þjónustu vegna þess að slíkt álag var á deildinni og ekki mannafli til að sinna þessum börnum. Þá var gripið til þess ráðs að flytja þjónustu við einhverfa yfir á Greiningarstöðina. Það á að gera áætlun um mannahald, byggja upp framtíðarsýn, byggja upp þjónustu og skoða hvernig þurfi að taka á þessu. Það er ekki gert. Greiningarstöðin tekst á við verkefni sem tvær stofnanir sinntu áður. Hins vegar hefur hún ekki fengið fjármagn til að fylgja þessu eftir.

Herra forseti. Það er gott að heyra hæstv. heilbrrh. segja að menn hafi sest niður og skoðað rekstraráætlun, það þurfi að leysa vandann og hætta að skerða þjónustu. Um þetta hefur verið rætt aftur og aftur og það eina sem var gert í desember var að skera halann af. Það sem þarf að gera er að horfa til framtíðar.

Það sem hefur verið að gerast eftir að Greiningarstöðin tók við þessum verkefnum er að meira að segja umboðsmaður barna hefur haft afskipti af þessum málum og lagt fyrir fyrirspurn um hvort rétt væri að einhverf börn fengju lakari þjónustu eftir að verkefnin voru flutt frá barna- og unglingageðdeild yfir á Greiningarstöðina. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnarandstaðan er að finna upp eða rexa yfir. Þetta er grafalvarlegur vandi.

Það sem skiptir máli í dag, herra forseti, er að áður var verið að tala um tvö og þrjú börn með einhverfu í hverjum árgangi en nú er gert ráð fyrir allt að 9--10 börnum með dæmigerða einhverfu, þá eru ekki tekin með börn með Asperger-heilkenni sem bætast þarna við.

Það er mjög mikilvægt að hafa framtíðarsýn í þessu máli, að skipuleggja starfið og fjölga stöðugildum, herra forseti.