Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:42:55 (6010)

2002-03-12 13:42:55# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það var alveg ljóst við fjárlagaumræðuna í vetur að þessi staða mundi koma upp fljótlega eftir áramótin. Í þeirri umræðu nefndi ég dæmi af móður átta ára drengs í Laugarnesskóla sem beðið hafði eftir meðferð fyrir drenginn eða greiningu á Greiningarstöðinni. Fyrir nokkrum dögum fékk ég aftur bréf frá þessari móður og ég ætla að leyfa mér að lesa úr þessu bréfi. Hún segir hér --- hún hefur sent þetta bréf líka til hæstv. félmrh.:

,,Ég er móðir átta ára drengs í Laugarnesskóla sem vísað var til greiningar á einhverfusviði Greiningarstöðvar ríkisins í fyrravor af skólasálfræðingi. Í haust var mér sagt að engin von væri um greiningu á þessu skólaári. Í fyrradag fékk ég svo bréf þar sem umsókn okkar var vísað frá vegna fjárskorts. Greiningarstöðin sinnir ekki lengur börnum á grunnskólaaldri.

Þetta er algerlega óviðunandi. Ef maður fer til læknis vegna gruns um sjúkdóm sættir maður sig ekki við að fá ekki sjúkdómsgreiningu því öll meðferð hlýtur að miðast við greininguna. Nákvæmlega það sama gildir um greiningu þá sem fer fram á Greiningarstöð. Fötluð börn verða að fá þessa þjónustu rétt eins og hver annar ófatlaður sem grunar að hann sé haldinn einhverjum kvilla. Öll aðstoð og meðferð miðast við greininguna. Ef hún liggur ekki fyrir er lítið hægt að gera.

Þess vegna spyr ég: Hvernig hyggjast stjórnvöld bregðast við þessari breyttu stöðu? Ég veit að ef barn greinist einhverft getur skólinn fengið miklu meiri stuðning fyrir það. Nú er ljóst að þessi greining fæst ekki og þar af leiðandi engir peningar til stuðnings. Hvað verður þá um þessi börn sem grunur leikur á að séu einhvers staðar á einhverfurófinu eins og það er kallað? Ég vona að leikurinn sé ekki gerður til þess að þurfa ekki að setja neina peninga í stuðning.``

Ég verð bara að taka undir með þessari móður og deili áhyggjum með henni. Ég bið hæstv. ráðherra að sjá til þess að þetta fólk fái þá greiningu sem þarf þannig að hægt sé að bregðast við og veita þá meðferð sem nauðsynleg er.