Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:22:24 (6023)

2002-03-12 14:22:24# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna að sú ágæta stofnun Landspítali -- háskólasjúkrahús er oft til umræðu í þessum sal og því miður oft á neikvæðum nótum eða vegna vanda sem þar hefur komið upp. Hins vegar er óhjákvæmilegt að slík stofnun sé rædd í þessum sölum þegar læknar koma fram með jafnákveðnum hætti og gerst hefur nú að undanförnu, þar sem læknar skrifa greinar og nota orð eins og að mannréttindi séu brotin, að kreppa sé á stofnuninni og að neyðarástand ríki.

Það er auðvitað óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra svari til um hvernig á því standi að læknar telja sig neydda til þess að koma fram og nota slík orð. Það er eðlilegt að spyrja hæstv. heilbrrh. hvort sameiningarferli stofnananna eigi hér einhverja sök á, hvort sameiningarferlið sé á einhvern hátt að mistakast eða hvort aðrar ástæður ráði því að læknarnir velja þessi orð. Er áætlanagerð ábótavant? Eru rangar áherslur í starfinu? Hefur forgangsröðun verið röng eða er skortur á fjármagni? Hverjar eru meginástæðurnar og hvað er hægt að gera til þess að bæta úr?

Þá má ekki gleyma því að hér er að sjálfsögðu líka enn eitt birtingarformið á hinni óheillavænlegu íbúaþróun sem við höfum þurft að búa við of lengi í landinu því að það er ljóst að þjónustan hefur ekki haldið í við íbúaþróunina. Það er einnig eðlilegt að taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að auðvitað er eðlilegt að reyna að horfa til þess að nýta þá þjónustu sem vannýtt er mjög víða um landið. Einnig ber að fjölga hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum, auka pláss á sjúkrahótelum og þannig mætti áfram halda.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að draga fram hversu alvarlegt þetta ástand er þegar læknir ritar að því miður sé ástandið þannig nú að viðkomandi treystir sér vart til þess að standa við þann læknaeið sem undirritaður var við útskrift.