Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:24:42 (6024)

2002-03-12 14:24:42# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:24]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Af svörum hæstv. heilbrrh. er ljóst að unnið er markvisst að því innan ráðuneytisins og af stjórn og starfsfólki Landspítala -- háskólasjúkrahúss að bregðast við þeim vanda sem við er að etja í starfsemi sjúkrahússins og hefur bitnað á gæðum þjóustunnar við sjúklinga. En svo sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir stafar vandinn m.a. af sameiningu sjúkrahúsanna en líka af mikilli fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu og fjölgun einstaklinga yfir 67 ára aldri. Þessi íbúafjölgun og breyting á aldurssamsetningunni hefur ekki aðeins aukið álagið á sjúkrahúsið, heldur kallar hún jafnframt jafnt og þétt á mikla aðlögun í starfsemi þess og líka breyttar áherslur í heilbrigðiskerfinu og það er eitt af því sem þarf stöðugt að vera að vinna að.

Skýrsla sú sem ráðherra nefndi um uppbyggingu og eflingu þjónustu við aldraða er einmitt eitt dæmi um þá vinnu sem er í gangi og hún gerir ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða um á milli 400 og 500 pláss á næstu fimm árum m.a. til að mæta þeim mikla útskriftarvanda sem nú er víða fjálglega lýst og við er að eiga á sjúkrahúsinu.

En það má heldur ekki í þessu sambandi gleyma uppbyggingu annarrar félagsþjónustu og annarrar heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða til samræmis við þau markmið heilbrigðisáætlunar að fjölga þeim öldruðu einstaklingum sem geta búið heima hjá sér lengur heldur en verið hefur, svo sem heimaþjónustunni, heimahjúkrun og dagvistun. En samhliða því að bregðast við skammtímavanda er verið að horfa til lengri tíma litið með það að markmiði að draga úr þörfinni eftir hjúkrunarrýmunum.

Herra forseti. Í þeirri umræðu um vanda eins og þann sem nú er við að etja á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi verða menn, bæði starfsfólk sjúkrahúsanna og þingmenn, að gæta þess að taka ekki of stórt upp í sig og vera með slagorð og stóryrði, a.m.k. ekki þannig að það trufli starfsemi sjúkrahúsanna og raski starfsfriði og ró starfsmanna. Fjölmörgum sjúklingum er engan veginn greiði gerður með slíkri umræðu heldur er hún þvert á móti til þess fallin að vekja hjá þeim óöryggi og vantraust sem er kannski síst ofan á veikindin bætandi.

Sameiningarferlið hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir og verið starfsmönnum og stjórn erfiðara en ætlað var.