Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:37:05 (6030)

2002-03-12 14:37:05# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að hér séu einhver smámál á ferð. Það er að vísu alveg rétt að ákvæðum um ítölu hefur ekki verið beitt í mjög ríkum mæli á undanförnum árum og það geta verið efasemdir um hversu árangursrík sú aðferð hafi verið. Þó leikur enginn vafi á því að tilvist þessara ákvæða hefur haft mikil áhrif. Mér er kunnugt um dæmi þar sem það eitt að komið hefur til skoðunar að taka upp ítölu hefur leitt til þess að úrbætur hafa orðið einfaldlega vegna þess að menn sáu að málin voru að fara í óefni og það að komið var á dagskrá að fara að beita ítölu á viðkomandi upprekstrarsvæði leiddi til þess að menn tóku málin í sínar hendur, drógu úr beitarálaginu o.s.frv.

Til eru nokkur svæði þar sem rekið hefur verið upp samkvæmt þaulskipulagðri ítölu. Í öðrum tilvikum liggja að baki langvinn deilumál um upprekstrarrétt sem síðan hafa verið sett niður og ítala eða upprekstrarréttur tengdur ítölu hefur komið þar við sögu.

Herra forseti. Síðan finnst mér að við þessar aðstæður, af tilefnum af þessu tagi, megi hæstv. ráðherrar gjarnan fara aðeins yfir stöðuna í viðkomandi málaflokki og leggja óumbeðið og að eigin frumkvæði fram upplýsingar um stöðu mála. Er það endilega þannig að alltaf þurfi að draga allt slíkt upp úr mönnum með töngum? Liggur mönnum alltaf þessi lifandis ósköp á að aldrei sé að fyrra bragði og að eigin frumkvæði notað tækifærið þegar málefni af þessu tagi ber á góma, þegar mál koma fyrir þingið þar sem verið er að breyta framkvæmd eða skipulagi á tilteknu sviði, og upplýst almennt um stöðu mála? Ég held að hæstv. ráðherra hefði haft alveg nægt tilefni til að fara hringinn um landið og gera okkur grein fyrir stöðunni í grófum dráttum eins og hún er á helstu afréttum.