Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:13:14 (6042)

2002-03-12 15:13:14# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svo hefur náttúrlega farið eins og við mátti búast og er fullkomlega eðlilegt að hér upphófust nokkur skoðanaskipti um ástand beitarmála og upprekstrarmála og hluti því tengda. Það er nákvæmlega eins og ég tel að það eigi að vera. Þegar farið er yfir mál af þessu tagi á annað borð og þau koma til umfjöllunar hér á þingi er eðlilegt að menn reyni að glöggva sig á stöðu mála.

Ég vil aðeins koma inn á tvö atriði sem borið hefur á góma. Það fyrra er spurningin um almennt ástand landsins og hvort því sé að miða til réttrar áttar eða ekki. Mín tilfinning fyrir því er sú, og hún er að sjálfsögðu fyrst og fremst tilfinning og byggð á því að hafa reynt að fylgjast sæmilega með þessum málum í svona 25 ár eða svo, að víða sé land í framför sem betur fer. Sérstaklega gildir það um heimalönd sem víða voru ákaflega illa útleikin eftir mikla fjölgun sauðfjár og eftir mikla og harða vetrarbeit um áratuga og alda skeið. Enginn minnsti vafi leikur á því að breyttir búskaparhættir þar sem vetrarbeit hefur að verulegu leyti aflagst og talsverð uppgræðsla er af hálfu bænda í heimalöndum, hafa þarna skilað miklum árangri. Nærtækast til þess að sannreyna þetta er að fylgjast með ástandi víðis og gróðurs sem er svona sælkerafæði sauðkindarinnar og fleiri tegunda og lætur gjarnan fyrst á sjá eða tekur framförum ef landið er í góðu ástandi. Ég hygg að menn geti farið mjög víða um og séð að ástandið er víða að lagast. Þurrlendi, kjarrlendi, er í stórri framför en það var einmitt það land sem fór gjarnan verst út úr vetrarbeit miðað við fyrri búskaparhætti, ég tala ekki um þegar mokað var ofan af og fé stóð í krafstri á hörðum vetrum og eftir stóðu svartir móar að vori.

Tíðarfarið hefur auðvitað þarna líka mikil áhrif, ekki bara búskaparhættirnir og fjöldi búpenings heldur líka tíðarfar. Menn þóttust víða merkja afturför í landinu eftir litla kuldaskeiðið sem hér ríkti á árunum um það bil frá 1965 og fram yfir 1980. En nú hefur aftur brugðið til hins betra og meðalhiti hefur verið sæmilega mikill og hlýr. Reyndar er hnötturinn að hitna eins og kunnugt er. Fáir deila nú lengur um að gróðarhúsaáhrifin láta á sér bera.

[15:15]

Þetta held ég, herra forseti, að sé ástæða til að nefna og í sjálfu sér er það jákvætt. Það er alveg ástæða til að ætla að land sé víða frekar í framför en hitt. Það breytir þó ekki því að enn eru til svæði þar sem mikil jarðvegseyðing geisar og enn eru dæmi þess að land sé illa ofnýtt. Þar hefur hrossabeit sums staðar tekið alveg við og yfirskyggir það sem menn höfðu áður meiri áhyggjur af, þ.e. sauðfjárbeitinni.

Í öðru lagi, herra forseti, kannski meira til gamans vegna þess að hæstv. ráðherra upplýsti um gáfaðar kindur á Suðurlandi sem skiluðu sér að hausti á þann blett þar sem þeim hafði verið hleypt ofan af vörubílum eða vögnum sunnlenskra bænda sem gjarnan aka fé sínu upp á afréttir á dráttarvél og vagni. Þetta kann allt að vera rétt og einkennandi fyrir gáfnafar sunnlenskra kinda. En ég verð að segja að af mínum heimaslóðum eru sagðar meiri sögur af gáfnafari þeirra fjallafála sem nota greind sína til að sleppa undan smalamönnum og njóta frelsisins í fjallasal en ekki til að skila sér heim. Og vekja þær gjarnan meiri aðdáun smalamanna þrátt fyrir allt, þær sem hafa betur, vinninginn, í þeirri viðureign þó að mönnum geti hitnað í hamsi meðan á leiknum stendur.

Herra forseti. Ég vil ekki að menn misskilji orð mín. Um efni þessa frv. að öðru leyti er sitthvað gott að segja. Það kann að vera hin ágætasta breyting, fyrirhuguð, að taka upp ákvæðin í landgræðslulögum um úrbótaáætlun, og það hljómar um margt skynsamlega að reyna að vinna skipulega og í góðu samstarfi við bændur því allt byggir á því að sæmilega vel takist til. Það vekur mér samt nokkra undrun þegar ég fer að skoða betur frv. sem hér er flutt, um breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Það breytir ekki hinu að sveitarstjórnum og heimaaðilum er að sjálfsögðu áfram ætlað mjög afdrifaríkt og mikilvægt hlutverk í sambandi við gróðurvernd enda hlýtur það svo að vera. Það er engum öðrum til að dreifa sem er alls staðar á vettvangi og engum stendur nær að reyna að fylgjast með þeim málum en stjórnum fjallskiladeilda og sveitarstjórnum, eða þá héraðsnefndum eða öðrum sem um slík mál kunna að fjalla.

Það má einmitt segja að kjarninn sé skilinn eftir í þessu frv. til laga um afréttamálefni og fjallskil í hlutverki sveitarstjórnanna að þessu leyti en ég verð að segja að ég er nokkuð undrandi á því hvernig þetta er gert. Það er gert með því að henda III. kaflanum eins og hann leggur sig út úr lögunum þar sem fjallað er um verndun beitilands og um ítölu. Einmitt þar eru skilgreind verkefni þessara aðila og réttur manna, hvers um sig, eins og hann hefur verið, t.d. til þess að tilkynna um áhyggjur af ástandi gróðurlendis og knýja fram aðgerðir á því sviði. Ég er ekki viss um að allt sé sem sýnist í þeim efnum. Í orði kveðnu heitir það svo að hér séu felld brott öll ákvæði um ítölu en þegar betur er að gáð er það ekki svo. Það er alveg hárrétt sem Drífa Hjartardóttir, hv. 1. þm. Suðurl., sagði áðan, að eftir stendur það í reynd að ítölu verður við komið og hún getur beinlínis verið grunnurinn að aðgerðaáætlun eða úrbótaáætlun Landgræðslunnar þegar betur er að gáð. Munurinn verður bara sá að lagaákvæðin um ítöluna verða ákaflega fátækleg.

Ef við förum aðeins yfir þetta, herra forseti, er greinilega meiningin að skilja eftir þrjár greinar þar sem áður var allur III. kafli laganna, 15.--30. gr., og þetta er í töluliðum a--c í 3. gr. þessa frv. Í a-liðnum sem verður 15. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnum er skylt að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum og skulu þær hafa um það samráð við Landgræðsluna.``

Þetta er sambærilegt ákvæði og áður hefur verið í 15. gr. nema að þar var talað um stjórnir fjallskiladeilda og sveitarstjórnir. Þar var sömuleiðis fjallað um hlutverk gróðurverndarnefnda og ég spyr: Hver verður staða gróðurverndarnefnda eftir þessa breytingu? Út úr lögunum hverfur heilmikið sem sagt er nú um þetta hlutverk.

Í b-lið er komið að 16. gr. Hún er að stofni til sambærileg við 16. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um möguleika aðila til að grípa til aðgerða nema að nú er þar talað um sveitarstjórnir aftur eða stjórnir fjallaskiladeilda þar sem áður var talað um gróðurverndarnefndir Landgræðslu ríkisins og stjórnir fjallskiladeilda sameiginlega. Síðan koma þessi ákvæði, að færa fram göngur að hausti, að ákveða hvenær megi reka búfé á afrétt, hrossabeitin og annað.

Síðan er í c-lið lagt til efni væntanlegrar 17. gr. og þar kemur rúsínan í pylsuendanum fyrir utan að taka það fram sem ég hélt að þyrfti ekki beinlínis, að bóndi skuli sá teljast sem hafi lögbýli til ábúðar. Ég hélt að frá því væri rækilega gengið í öðrum lögum eins og jarðalögum, ábúðarlögum og víðar, og sú skilgreining væri algjörlega hefðarhelguð, en látum gott heita. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Réttur hvers lögbýlis til upprekstrar búfjár á afrétt, í úrbótaáætlun Landgræðslunnar, skal ákveðinn af viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum þegar fleiri en eitt sveitarfélag eiga upprekstur á sama afrétt.``

Hvað er verið að segja hér? Hér er verið að tala um ítölu, ekkert annað. Ef úrbótaáætlun Landgræðslunnar byggir á því að takmarka fjölda búfjár á eitthvert upprekstrarsvæði er það orðin ítala og þá skal sveitarstjórnin ákveða hana og rétt hvers lögbýlis. Nánari ákvæði um útreikning og framkvæmd þeirrar ítölu hverfa hins vegar öll brott úr lögum af því að III. kaflinn fellur niður eins og hann leggur sig fyrir utan þessar þrjár stuttu greinar sem eftir standa.

Hvers vegna er þetta gert svona, herra forseti? Er þetta mjög hyggileg lagaráðstöfun? Ég bendi sérstaklega á að það á að fella úr gildi 4. mgr. 24. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. En þar er hin gamla regla um það á hvaða grunni upprekstrarréttur hvers lögbýlis skuli byggja og þar mun vera um að ræða að stofni til ákvæði frá 1932.

Hins vegar segir í athugasemd um 3. gr. frv.: ,,Til viðmiðunar skal litið til núgildandi 4. mgr. 24. gr. laga ...`` Með öðrum orðum er skilin eftir sú lögskýring að þegar sveitarstjórnir skuli í reynd ákveða ítöluna inn í hina nýju úrbótaáætlun Landgræðslunnar skuli til viðmiðunar nota þetta gamla lagaákvæði. En er þetta þá mjög traustur lagaumbúnaður? Hefur hæstv. landbrh. engar áhyggjur af því að af þessu gætu risið deilur? Hvað þýðir þarna ,,til viðmiðunar``? Er ekki betra að hafa þetta þá alveg skýrt?

Nú kann að vera að gamla ákvæðið sé ekki að öllu leyti heppilega úfært. Það geta vel verið tilefni til að fara aftur yfir það hvort þarna væri hyggilegt að breyta að einhverju leyti um viðmiðun sem var sú að 1/3 skyldi vera jafn réttur jarðanna og 2/3 skyldu ákvarðast í hlutfalli við beitarþol heimalands jarðarinnar. Síðan koma ákvæðin um landverð, mat o.s.frv. En eitt er víst og það er að hér gætu vaknað upp alveg óskaplega viðkvæm mál ef deilur fara af stað, og ég er ekki viss um að sveitarstjórnum landsins, sem í þessu kynnu að lenda á komandi árum, sé greiði gerður með því að lagaleiðsögnin sem áður var skýr og til staðar í III. kafla þessara laga hverfi og eftir standi þessi fátæklegu ákvæði og síðan sú lögskýring að til viðmiðunar skuli líta til núgildandi 4. mgr. 24. gr. sem hins vegar er felld úr gildi og verður ekki lengur lög heldur eingöngu gamall texti sem menn munu á komandi tímum ef á reynir finna með því að lesa greinargerð með þessu frv.

Svona sýnist mér þetta mál liggja, herra forseti, eftir að hafa skoðað það hér um stund. Þá verð ég að segja að ég er alls ekki viss um að menn hafi hér höndlað sannleikann eða að þessi ákvæði séu að öllu leyti mjög skynsamleg.

Ráðherra sagði einmitt að verið væri að leita að skilvirkari og betri aðferðum heldur en gildandi ákvæði hafi verið. Það er auðvitað alveg rétt að það hefur ekki alltaf gengið átakalaust. Menn muna kannski eftir áralöngum átökum milli Landgræðslunnar og bænda í Mývatnssveit um upprekstrarmálefni þar, ákaflega viðkvæmum deilum, sem stofnuðust að hluta til af mismunandi mati manna á því hvernig ástand gróðurlandsins væri og hvaða áhrif t.d. upprekstur í mellöndin á vori hefði. Ég ætla ekki að gerast dómari í þeirri deilu en leyfi mér að halda að kannski hafi báðir haft nokkuð til síns máls, heimamenn sem tefldu fram staðkunnugleika sínum og langri reynslu af umgengni við þetta land en líka auðvitað Landgræðslan sem horfði á að þarna var um að ræða eitt af viðkvæmustu og stærstu uppblásturssvæðum eða gróðureyðingarsvæðum landsins, Mývatnsöræfin.

Þó er þetta þannig að í gildandi lögum er með mjög skýrum hætti kveðið á um að þessir aðilar skuli allir koma saman og eiga samráð um þær aðgerðir sem þarna eru á ferðinni. Ég hef svo sem enga sérstaka tilfinningu endilega fyrir því að menn finni þessu betri farveg ef deilumál stofnast. Eitt er víst og það er að ef ekki er samkomulag og grípa þarf til þvingunaraðgerða, eins og gefið er í skyn auðvitað og liggur í orðanna hljóðan að getur orðið niðurstaðan, getur Landgræðslan með lögreglutilstuðningi --- með atbeina lögreglu --- hrint úrbótaáætlun sinni í framkvæmd, og sveitarfélögum er þá ætlað það hlutverk í þeim samskiptum að ákveða hinn ákaflega vandasama þátt málsins sem er upprekstrarréttur hvers einstaks lögbýlis. Er mönnum þá endilega greiði gerður með því að taka að mestu leyti út úr lögum þá leiðsögn sem þar hefur áður verið varðandi hvernig vinna skuli að slíkum hlutum?

Síðan spyr ég um áhrifin af breytingunum, t.d. á réttarstöðu einstakra aðila. Í 17., 18. og 19. gr. gildandi laga er t.d. fjallað um hvernig menn skuli bera sig að og hvernig réttarstaða manna sé ef menn hafa áhyggjur af ástandi gróðurlands og vilja að það sé skoðað. Þar er talað um að ítölu megi gera jafnt í afrétt sem heimalönd, fyrir heilar sýslur, einstök sveitarfélög eða hreppshluta. Í 18. gr. er talið upp hverjir hafi rétt til þess að koma því til leiðar að athugun sé gerð á ástandi gróðurlendis og það sé metið hvort þörf sé fyrir ítölu. Þessu mætti að sjálfsögðu breyta yfir í að athuga hvort nauðsynlegt sé að setja í gildi úrbótaáætlun ef menn vilja nálgast málið frá þeirri hlið. En mætti ekki standa þarna áfram að ósekju eins og verið hefur í lögum að þennan rétt hafi í fyrsta lagi einstakir bændur, í öðru lagi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir, í þriðja lagi héraðsnefndir, í fjórða lagi gróðurverndarnefndir og í fimmta lagi Landgræðsla ríkisins? Allir þessir aðilar hafa haft þennan rétt. Einstakir bændur hafa getað knúið fram á sínu svæði að svona athugun færi af stað. Tapast sá réttur með því eða hættir a.m.k. að vera sjálfvirkur ef öll þessi ákvæði detta út? Ég spyr. Spyr sá sem ekki veit. Ég hef ekki þaullesið hin nýju væntanlegu ákvæði um úrbótaáætlun. Það getur verið að eitthvað sambærilegt komi þar í staðinn en a.m.k. finnst mér rétt að fara rækilega yfir það hvað tapast þarna endanlega út úr lagatexta og hvaða réttaráhrif það hefur.

Út af fyrir sig, herra forseti, mætti nálgast málið ósköp einfaldlega með því að spyrja: Gerði það nokkuð til í sjálfu sér þó að ítöluákvæðin væru áfram til staðar til hliðar? Þótt ekki reyndi oft á þau væru þau þarna og réttinum væri ekki breytt að þessu leyti. Mér finnst stundum að þessi árátta, að hreinsa alla hluti út úr lagasafninu og vera alltaf að finna upp hjólið, beri menn ofurliði. Guði sé lof að menn hafa ekki alltaf verið haldnir þessari þráhyggju og að ekki er t.d. búið að hreinsa út alla Jónsbók úr lagasafninu. Það er gaman að lesa hin merku ákvæði, t.d. um reka og annað slíkt sem eru enn í fullu gildi, skýrt orðuð og skynsamlega útfærð og hafa haldið gildi sínu í mörg hundruð ár. Stundum þurfa menn ekki að hafa neinar óskaplegar áhyggjur af því þótt til staðar séu ákvæði í lögum sem ekki reynir dagsdaglega á en þau eru þarna ef á þyrfti að halda. Og þá hefði verið rétt og einfalt að samræma ósköp einfaldlega þessi ákvæði eftir því sem til þyrfti þessari nýju framkvæmd sem ég ætla ekki að tala gegn, nema síður sé, þessum hugmyndum um að byggja þetta á einhvers konar úrbótaáætlunum sem Landgræðslan stendur þá aðallega fyrir en ýmis nálgun í þessum efnum finnst mér orka tvímælis, herra forseti.

Ég spyr svo að lokum: Hvaða heimildir standa þá eftir í lögum til að kveða á um þessa hluti í fjallskilasamþykktum? Lagastoðin fyrir þeim hefur verið í þessum kafla, III. kafla laganna, m.a. um að setja ákvæði um ítölur í fjallskilasamþykktir. Hún verður felld niður með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Þá verður staðan sú að engin sjálfstæð lagastoð verður fyrir því að hafa í fjallskilasamþykktum ákvæði um ítölu en eftir sem áður eiga viðkomandi sveitarstjórnir í reynd að annast um það mál ef á þarf að halda inni í aðgerðaúrbótaáætlun Landgræðslunnar. Ég er ekki alveg viss um, herra forseti, að menn hafi náð að róa fyrir hverja vík. Spurningin er hvort menn ættu ekki að flýta sér hægt og fara rækilega yfir það hvort verið sé að ganga nógu skynsamlega frá þessari lagaumgerð í heild sinni.