Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:40:04 (6048)

2002-03-12 15:40:04# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Það hefur komið í ljós í máli þingmanna sem hafa tekið til máls að hér kann að vera um viðameira mál að ræða en framsöguræða hæstv. ráðherra gaf til kynna. Vísa ég þar til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann bendir réttilega á að heill kafli, upp á annan tug greina, á að falla brott úr lögunum, þ.e. kaflinn um verndun beitilands og ítölu og í stað þess kafla eiga að koma þrjár greinar sem gerð er grein fyrir í þessu frv. Ég vil bara taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa greint málið og bætt úr þeim upplýsingaskorti sem var til staðar þegar hæstv. landbrh. fylgdi málinu úr hlaði.

Annað sem hæstv. landbrh. hefur ekki gert mikið úr í sínum málflutningi, þ.e. þegar hann mælti fyrir frv. til laga um landgræðslu og sömuleiðis um landgræðsluáætlun og líka núna, er sú staðreynd að nú eigi að breyta nafninu á Landgræðslu ríkisins. Nú vil ég hvetja hv. landbn., af því að hér eru hv. þm. úr nefndinni staddir, til að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Þetta er tilhneiging hjá ríkisstjórninni og greinileg stefna hennar, að ganga svo um lagasetningu að nöfnum ríkisstofnana sé einlægt breytt á þeim nótum að ekki má lengur standa ,,ríkisins`` í nafni opinberra stofnana.

Ég skil ekki, herra forseti, þessa makalausu fælni við að stjórnvöld innrammi það að okkar sameiginlega auðlegð sé fólgin í stofnunum sem við kennum við ríkið. Mér fyndist fullt gagn að því að fá hæstv. landbrh. til að fara um það nokkrum orðum hvers vegna þessi tillaga er sett inn í lagatexta. Reyndar var þetta í frv. til laga um Landgræðslu. Mér hafði yfirsést þegar ég var að kynna mér það mál en það er hnykkt á því hér í frv. til laga um breytingu á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Nú skal breyta nafni Landgræðslu ríkisins í Landgræðsluna. Mér finnst þetta flatneskjulegt og lýsa skorti á skilningi. Mér finnst þetta satt að segja langt frá því að vera ögrandi nafnbreyting. Ég hef áður gagnrýnt stjórnvöld úr þessum stól fyrir óyfirvegaðar tillögur af þessu tagi. Ég treysti því að landbn. taki þetta til ítarlegrar skoðunar og athugi hvort hér séu einhver rök til að gera nafn Landgræðslu ríkisins lágkúrulegra eins og þessi lög gera ráð fyrir.

Eitt af því sem ég orðaði í umræðunum við hæstv. ráðherra, þegar við vorum að fjalla um Landgræðsluna, var ástandið í beitarmálunum. Hæstv. ráðherra hefur í ræðu sinni og andsvörum varað menn við að gera of mikið úr slæmu ástandi gróðurs og jarðvegs. Hann fer um það fögrum orðum að ástand þessara mála hafi batnað mikið á seinni árum samfara fækkun búfjár. Það er að sönnu rétt hjá hæstv. ráðherra að slíkt á auðvitað við í ákveðnum tilfellum. Þar með er þó ekki sagt að ástandið á auðnum landsins og rofsvæðum hafi batnað svo nokkru nemi í samræmi við fækkun búfjár.

Ég vil því aftur og enn hefja máls á því alvarlega ástandi sem ríkir varðandi jarðvegsrof og fok á Íslandi. Ég hef ákveðið að taka með mér í ræðustól, herra forseti, þetta öndvegisrit, Jarðvegsrof á Ísland, sem gerir grein fyrir öflugu rannsóknarverkefni sem stóð á árunum 1991--1996 þar sem farið var yfir allt landið og ástand þess mælt á afar faglegan og vísindalegan hátt. Verkefnið sem gerð er grein fyrir í þessari bók er unnið af Ólafi Arnalds, Elínu Fjólu Þórarinsdóttur, Sigmari Metúsalemssyni, Ásgeiri Jónssyni, Einari Grétarssyni og Arnóri Árnasyni. Það gerir okkur grein fyrir því að ástand mála á auðnum og rofsvæðum landsins árið 1997 var afar alvarlegt.

Í erindi sem Ólafur Arnalds hélt á samráðsfundi Landsvirkjunar 23. apríl 1999 fer hann nokkrum orðum um þetta alvarlega ástand, sem ég fullyrði að hefur ekki breyst mikið síðan niðurstöður þessa verkefnis voru kynntar. Hann segir í erindi sínu, með leyfi forseta:

,,Þegar kemur að beitarafnotum af auðnum og rofsvæðum landsins virðast stjórnmálamenn og aðilar stjórnsýslunnar slá skjaldborg um ímyndaða hagsmuni með aðgerðarleysi sínu án tillits til þekkingar á vistkerfum landsins og þeirrar kröfu samfélagsins að öll nýting landsins skuli vera sjálfbær.``

Ólafur Arnalds spyr, herra forseti, í lok þessa erindis síns: ,,Hver ber ábyrgð á velferð gróðurs og jarðvegs? Hver hefur kjark til að höggva á hnútinn sem nú reyrir beitarnýtingu hálendisins í aldagamlan hugsunarhátt?``

Ég vil, herra forseti, hvetja hv. þingmenn, sérstaklega þá sem sæti eiga í landbn., til að skoða þessi mál af mikill alvöru og festu. Hafi það verið svo árið 1997 eða 1999 að beitarnýting hálendisins hafi verið reyrð í aldagamlan hugsunarhátt þá hefur sá hnútur ekki verið leystur í dag, árið 2002. Þá hlýtur sá hnútur enn að vera til staðar. Þá er það akkúrat núna þegar hv. þingmenn fá mál af þessu tagi til umfjöllunar að okkur ber að skoða hvort ekki sé tilefni til að hugleiða tillögur sem komið hafa frá vísindamönnum okkar um algera friðun auðna og rofsvæða á landinu fyrir beit.

Þetta vildi ég leggja í pottinn, herra forseti. Að öðru leyti treysti ég því að hv. landbn. fari yfir þetta mál af mikilli natni. Þetta eru auðvitað mikil og stór mál og sjálfsagt að þau verði skoðuð ítarlega og brotin til mergjar.