Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 15:48:57 (6050)

2002-03-12 15:48:57# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það rétt sem hv. 1. þm. Suðurl. segir. Við eigum aldrei að líða ofbeit. Að sjálfsögðu eru hér tæki eða verið að reyna að koma á ákveðnum tækjum. En kannski er ástandið bara þannig á auðnum og rofsvæðum landsins --- ég legg enn áherslu á það, herra forseti, að ég er tala um auðnir og rofsvæði. Ég er ekki að tala um beitarland. Ég er að tala um svæði sem sauðfé hefur komist inn á vegna þess að aðgerðirnar hafa ekki verið nægilega sterkar eða þeim ekki beitt nægilega markvisst. Ég er að tala um að landbn. skoði möguleikana á að friða þessi landsvæði algerlega fyrir beit. Auðvitað má segja að tæki af því tagi sem þetta frv. leggur upp í hendur stjórnvalda geti gert sitt gagn. En ég held að það breyti því ekki að hugleiða megi spurninguna um friðun.

Hitt sem hv. þm. gerði að umtalsefni í andsvari sínu er því miður rangt, herra forseti. Landgræðsla ríkisins hefur aldrei heitið Landgræðsla Íslands. Svo virðist sem prentvillupúkinn hafi hins vegar komist í lög um afréttamálefni og fjallskil á sínum tíma. Í athugasemdum við 2. gr. frv. sem við erum með til umfjöllunar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Landgræðsla ríkisins hefur ekki heitið Landgræðsla Íslands. Hér er því lagt er til að heiti stofnunarinnar verði breytt í samræmi við frumvarp til laga um landgræðslu sem lagt er fram samhliða og nafninu verði breytt í ,,Landgræðslan``.

Landgræðsla ríkisins heitir því Landgræðsla ríkisins og hefur aldrei heitið Landgræðsla Íslands eins og þó er nefnt í lögunum um afréttamálefni og fjallskil.