Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:13:41 (6056)

2002-03-12 16:13:41# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við getum farið yfir það við betra tækifæri hverjir hafi aðallega komið óorði á ríkið og ríkisrekstur í gegnum tíðina. Ætli það hafi ekki verið menn sem hafa samsamað sig ríkinu og komist á þá skoðun eftir langvarandi valdasetur að þeir væru ríkið. Mætti vitna til ýmissa frægra spakmæla úr sögunni í þeim efnum.

Svo mikið er víst að ég vissi það ekki fyrr en núna að það væru kommúnistar sem hefðu verið að koma óorði á ríkisrekstur á Íslandi upp á síðkastið í Þjóðmenningarhúsi eða Landssíma. Það eru mér alveg nýjar fréttir ef kommúnistar hafa þar sérstaklega vélað um. Hafi einhverjir virkilega lagt sitt af mörkum til þess að koma óorði á slíkan rekstur sem áður var í góðum skorðum eru það þeir sem þar hafa um vélað upp á síðkastið.

Varðandi Landgræðsluna, þ.e. nafn hennar, þá er það auðvitað ekki til að pexa um. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst stundum þessi árátta til hátíðlegheita í þessum nafngiftum beinlínis brosleg, þegar allt í einu er komið upp skilti í bænum á ónefndri stofnun sem maður keyrir stundum fram hjá og þar stendur: Ríkislögreglustjórinn. Ríkislögreglustjórinn, með ákveðnum greini. Það vantar ekki annað en sett sé kóróna aftan við nafnið.

Ég þakka þó fyrir að í 3. gr. frv. um landgræðslu stendur að yfirmaður Landgræðslunnar nefnist landgræðslustjóri. Sýkin hefur þá ekki náð þarna inn, hann á ekki að heita landgræðslustjórinn með ákveðnum greini. Ég hefði haldið að þetta mætti vera í friði eins og það var. Þetta hefði mátt heita Landgræðsla ríkisins. Síðan tala menn í daglegu máli gjarnan um Landgræðsluna eða Landgræðsluna í Gunnarsholti. Það er allt á sínum stað og ágætt. Ég sé ekki hver ósköpin menn ætla að vinna með þessu.

Þó má í sjálfu sér segja að meðan menn geri ekki meira ógagn og vitleysur í lagasetningunni en þetta eitt þá megi þakka fyrir það.