Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:52:38 (6063)

2002-03-12 16:52:38# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vildi ég koma því sjónarmiði mínu á framfæri að ég teldi miklu nær hug Íslendinga og þeirri ábyrgð sem við viljum bera sameiginlega á landgræðsluverkefnum í landinu að stofnunin héti Landgræðsla ríkisins eða Landgræðsla Íslands.

Ég get líka upplýst hæstv. landbrh. um að vissulega verða breytingar á nafngiftum. Bændaskólinn á Hólum fékk nafn sitt einungis af því að þjóðskránni datt í hug að skrá hann með þeim hætti en hefur nú aftur fengið sitt formlega og gamla nafn, Hólaskóli. Þannig að hann heitir núna Hólaskóli, til leiðréttingar fyrir hæstv. ráðherra.

Ég vil draga athyglina að því að ég og margir aðrir erum aldir upp við að nytjar jarðarinnar þar sem við ólumst upp á fólust jöfnum höndum í landi og sjó. Í mínum uppvexti var ekki gerður greinarmunur á meðferð, nýtingu eða mikilvægi auðlindanna hvort sem þær voru í sjó, við ströndina eða í dalverpinu fyrir ofan bæinn. Ég tel að það væri betra ef litið væri á auðlindirnar frá þessum samræmda sjónarhóli. Enn eru jarðir og búskapur metin, verðmæti þeirra og möguleikar metnir út frá báðum þessum þáttum, auðlindunum meðfram ströndum landsins og á landinu sjálfu.

Þegar menn meta búskaparhæfni jarða á einmitt að horfa til þessara beggja hátta og líka verndunar og meðferðar þeirra auðlinda sem þar liggja undir. Þess vegna tel ég og vildi koma því sjónarmiði á framfæri við hæstv. ráðherra að þessu yrði snúið í þann veg stjórnsýslulega séð.