Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:58:40 (6066)

2002-03-12 16:58:40# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:58]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað mjög merkilegt. Hv. þm. heldur sig áfram langt fyrir utan málefnið því að hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um afréttamálefni og fjallskil. Hann heldur sig hins vegar áfram við ströndina í ræðum sínum en við því er auðvitað ekkert að gera.

Hins vegar hef ég alltaf jafngaman af því þegar ég minnist á kommana, þá fer titringur um menn. (JB: Síberíukommana í Sjálfstfl.?) Ég minnist á þetta hlutverk ríkisins og geri svo að gamni mínu að tala um kommana og vinstri græna í því sambandi og held að þeir séu vinstri grænir og eitthvert nýtt afl. En þeir verða alltaf eins og feimin rjóð dama á dansiballi ef minnst er á kommana. (JB: Kommissarana í Framsfl.?) Hjartað fer að slá örar og þeir stökkva í vörnina. Það segir mér að kannski eru þeir bara refir í sauðargæru, enn þá með rótina í gömlu stefnu þess flokks sem áður var til en nú er fallinn frá, Alþýðubandalagsins. En við skulum ekki deila um það.

Ég vil bara í lokin, hæstv. forseti, þakka þessa umræðu, þá málefnalega umræðu sem ekki síst fór fram framan af degi. Við hinu er ekkert að gera. Þingmenn hafa málfrelsi og vilja koma að sjónarmiðum sínum. Ég þakka þeim að lokum fyrir þann áhuga sem þeir hafa í dag sýnt málaflokki mínum og málefnum landbúnaðarins yfirleitt þó ég sé að vísu miklu sáttari við þá sem settust við brúsapallinn eða ræðustólinn þegar umræðan hófst, fylgdu henni eftir í sókn og vörn og héldu sig við umræðuna.