Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:00:55 (6067)

2002-03-12 17:00:55# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 946 í máli nr. 600, en um er að ræða frv. til laga sem mun hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum.

Með frv. þessu er leitast við að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, í þeim tilgangi að tryggja að búnaðargjald greiðist eingöngu af framleiðslu en ekki af öðrum þáttum, t.d. heildsöluverði, þannig að búnaðargjald reiknist aðeins einu sinni af sömu framleiðslu. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að við lög nr. 84/1997 bætist nokkur ákvæði sem feli í sér eftirtaldar breytingar á lögunum.

Í fyrsta lagi bætist sérstakt ákvæði við 2. gr. laganna þar sem fram kemur að ef framleiðandi annast sjálfur vinnslu og/eða sölu afurða sinna, eða annar aðili í hans nafni, er framleiðanda heimilt að draga frá stofni til búnaðargjalds kostnað/virðisauka af þeirri starfsemi. Enn fremur er heimilt að draga frá stofni til búnaðargjalds kaupverð lífdýra sem keypt eru til áframeldis til framleiðslu búfjárafurða.

Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að framleiðendum verði gert skylt að sundurgreina framleiðslu sína eftir starfsstöðvum ef aðsetur þeirra er annað en lögheimili framleiðandans og á starfssvæði annars búnaðarsambands.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að innheimtuhlutfalli fyrirframgreiðslu verði breytt á þann veg að það verði jafnt skatthlutfalli búnaðargjaldsins.

Í fjórða lagi er í frumvarpinu að finna ákvæði um gildistöku þess við innheimtu fyrirframgreiðslu og við álagningu gjaldsins.

Ljóst er að tilgangur laga nr. 84/1997, um búnaðargjald, er sá að búnaðargjaldið leggist eingöngu á framleiðslu. Framkvæmdin hefur hins vegar verið misjöfn til þessa vegna mismunandi túlkunar á 2. mgr. 3. gr. laganna og mismunandi fyrirkomulags í afurðasölu. Í framkvæmd hefur í einhverjum tilvikum orðið misbrestur á að búnaðargjald sé eingöngu lagt á framleiðslu í samræmi við tilgang laganna. Einnig hefur þess orðið vart að í einstökum búgreinum sé búnaðargjald lagt á sömu framleiðslueiningar oftar en einu sinni. T.d. háttar þannig til með garðyrkjuafurðir að meiri hluti þeirra er seldur í umboðssölu hjá afurðafyrirtækjum. Bændur fá þá afreikning sem sýnir heildsöluverð en síðan er dregin frá söluþóknun, u.þ.b. 20%. Heildsöluverðið myndar síðan stofn til búnaðargjalds vegna þessa fyrirkomulags. Slík gjaldtaka er ekki tilgangur laganna og er ekki í samræmi við gjaldtöku af mjólk og kjöti, þar sem framleiðendaverðið myndar gjaldstofninn.

Þar sem framleiðendur annast vinnslu eða heildsölu afurða sjálfir liggja oft ekki fyrir skýrar upplýsingar um sundurgreiningu verðmyndunar. Hér er því lagt til að farin verði sú leið að ríkisskattstjóri setji matsreglur um hámarksfjárhæð vegna vinnslu og/eða sölu afurða sem komið geti til frádráttar við ákvörðun stofns til búnaðargjalds. Við ákvörðun þeirrar fjárhæðar skal ríkisskattstjóri taka mið af markaðsverði viðkomandi þjónustu hverju sinni. Jafnframt er í greininni kveðið á um að kaup lífdýra skuli ekki mynda stofn til búnaðargjalds þegar um er að ræða áframeldi til framleiðslu búvara. Vegna mismunandi framleiðsluskipulags í eggja- og kjúklingabúskap er misjafnt hve þungt búnaðargjaldið vegur í kostnaði einstakra framleiðenda.

Í nokkrum tilvikum hefur átt sér stað umframgjaldheimta hjá minni framleiðendum en hjá þeim stærri, sem annast allt uppeldi sjálfir, hefur það m.a. komið fram í hækkun á eggjaverði. Dæmi er um það í fleiri búgreinum að sérhæfing á mismunandi stigum framleiðslunnar valdi sams konar mismunum í álagningu búnaðargjaldsins.

Í frv. er sú skylda lögð á framleiðendur að sundurgreina framleiðslu sína við uppgjör til búnaðargjalds. Hún er byggð á að nokkur dæmi eru um að framleiðendur reki starfsstöðvar á fleiri stöðum en einum og njóti þar þjónustu viðkomandi búnaðarsambands. Eðlilegt þykir að greiðsla búnaðargjalds fari fram á sama starfssvæði og framleiðslan. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður búnaðargjald sundurgreint eftir starfsstöðvum þannig að hvert búnaðarsamband nýtur tekna af þeim starfsstöðvum sem eru á starfssvæði þess, enda er gert ráð fyrir að þessar stöðvar njóti þjónustu viðkomandi búnaðarsambanda.

Í frv. er lagt til að breyting verði gerð á innheimtuhlutfalli búnaðargjalds í fyrirframgreiðslu samkvæmt 4. gr. laganna til samræmis við skatthlutfall. Í frv. er hún til komin vegna þess að skatthlutfallið var lækkað úr 2,65% í 2,55% með lögum nr. 112/1999, um breytingar á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innheimtuhlutfalli í fyrirframgreiðslu var hins vegar ekki breytt með sama hætti og er því lagt hér til að innheimtuhlutfallið verði fært til samræmis við skatthlutfallið en ekki þykir eðlilegt að innheimtuhlutfallið sé hærra en skatthlutfallið.

Gildistökuákvæði frv. skýrir sig að mestu sjálft en samkvæmt því er gert ráð fyrir að ef frv. verði að lögum komi ákvæði 1. og 2. gr. frv., um heimild til frádráttar frá stofni til búnaðargjalds og um sundurliðun gjaldstofnsins til búnaðargjalds eftir starfsstöðvum, til framkvæmda við álagningu búnaðargjalds á árunum 2003. Þá er gert ráð fyrir að ákvæði 3. gr. um breytingu á innheimtuhlutfalli fyrirframgreiðslu búnaðargjalds komi til framkvæmda við ákvörðun fyrirframgreiðslu á árinu 2002.

Um búnaðargjald af búvöruframleiðslu fyrir þann tíma fer hins vegar eftir eldri lögum eða ákvæðum laganna eins og þau eru í dag. Á fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar og athugasemdar er fylgja frv.

Hæstv. forseti. Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, í þeim tilgangi að tryggja að innheimta búnaðargjalds samrýmist tilgangi laganna, þ.e. að gjaldið greiðist eingöngu af framleiðslu.

Einnig eru lagðar til breytingar sem miða að því að búnaðargjaldið renni til þeirra búnaðarsambanda sem viðkomandi framleiðandi nýtur þjónustu hjá auk þess sem gerðar eru nauðsynlegar lagfæringar á innheimtuhlutfalli fyrirframgreiðslu búnaðargjalds og það samræmist skatthlutfalli gjaldsins. Hér er einungis um að ræða breytingar á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, sem komið hefur í ljós við framkvæmd laganna að eru nauðsynlegar til þess að tilgangi laganna verði náð og innheimta búnaðargjalds verði sanngjörn og á þann veg sem kveðið er á um í lögunum. Hér er, eins og gerð hefur verið grein fyrir, einungis verið að renna styrkari stoðum undir framkvæmd laga sem lögfest voru á Alþingi árið 1997 og hafa að öðru leyti reynst vel í framkvæmd.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.