Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:09:41 (6068)

2002-03-12 17:09:41# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1997, það er ekki lengra síðan, gerðum við síðast breytingar á lögum um búnaðargjald. Nú hefur komið í ljós, þegar reynt hefur á þessi lög, að þau hafa ekki virkað að öllu leyti. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að leggja fram frv. til breytinga á lögum til að styrkja lögin og ítrekað að einungis sé ætlast til að búnaðargjald sé greitt af framleiðslu en ekki öðrum þáttum, t.d. heildsöluverði. En því miður hefur orðið misbrestur á þessu við framkvæmd laganna.

Það er aðeins ætlast til að gjaldið sé reiknað einu sinni af sömu framleiðslu. Samkvæmt því sem hér stendur skilst mér að það hafi líka borið við að búnaðargjald hafi verið tvíreiknað og kannski margreiknað af sömu framleiðslu. Þetta sáum við náttúrlega ekki fyrir þegar við vorum að vanda okkur við að gera þessi lög árið 1997 en ef þetta er rétt er náttúrlega um að gera að reyna að grípa inn í málið og breyta lögunum þannig að þau virki eins og til er ætlast.

Talað er um að framleiðandi sem annast sjálfur vinnslu eða sölu afurða sinna eigi aðeins að þurfa að borga af framleiðslukostnaðinum og draga eigi frá stofni búnaðargjalds kostnað eða virðisauka af þeirri starfsemi hans til viðbótar við framleiðsluna. Einnig er ætlast til að kaupverð lífdýra sem notuð eru til áframeldis sé dregið frá framleiðslunni. Ég tek undir að ef það er rétt, að misbrestur hafi verið á framkvæmd þessara laga af þessum sökum, er auðvitað rétt og skylt að ítreka það með þessum breytingum. Einnig er lögð áhersla á að framleiðslan sé sundurgreind eftir starfsstöðvum og innheimtunni breytt til að jafna skatthlutfall búnaðargjaldsins.

Í þessu frv. ákvæði um gildistöku og innheimtu fyrirframgreiðslu við álagningu gjaldsins. Það er talið að í einhverjum tilvikum hafi orðið misbrestur á að búnaðargjald væri eingöngu lagt á framleiðslu í samræmi við tilgang laganna eins og hér stendur. Einnig er tekið fram að fyrir hafi komið að búnaðargjald væri lagt á sömu framleiðslueiningar oftar en einu sinni. Ég verð að segja að þetta fer fram úr mínum villtustu fantasíum þar sem ég vann að samningu þessara laga á sínum tíma. Mér fannst að það væri einmitt séð við öllu slíku í lögunum en svo hefur ekki reynst vera.

Búnaðargjald á að greiða á starfssvæðinu þar sem framleiðslan fer fram, sem er náttúrlega sjálfsagt mál. Að lokum er lögð til breyting á innheimtuhlutfalli búnaðargjalds í fyrirframgreiðslu til samræmis við skatthlutfall en skatthlutfallið var lækkað með lögum nr. 112/1999, um breytingar á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins, án þess að innheimtuhlutfalli fyrirframgreiðslu væri breytt með sama hætti.

Eftir því sem mér virðist af frv. sem ég hef reynt að fara vel í gegnum, þetta er ekki mjög margort frv., er ekki annað að sjá en að þetta sé bara sjálfsagt mál. Ég geri ráð fyrir að eftir að hv. landbn hefur farið vel yfir málið munum við leggja til að frv. verði samþykkt. En auðvitað munum við fara mjög vel ofan í efnisatriði málsins í hv. nefnd.

Í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu stendur að ekki verði séð að frv. hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. Þá freistast ég til að draga þá ályktun að það hafi ekki verið mjög algengt eða víðtækt að búnaðargjald hafi verið innheimt af öðrum þáttum en átti samkvæmt lögunum að innheimta, fyrst fjmrn. telur ekki að þetta frv., sem á að setja undir þann leka sem hér hefur verið minnst á, hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.