Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:16:41 (6069)

2002-03-12 17:16:41# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald, með síðari breytingum. Verið er að samræma greiðslur allra búgreina, þ.e. að fyrirframgreiðsla búnaðargjalds verði sama og skatthlutfall búnaðargjaldsins. Það sem skiptir máli er að sömu reglur gildi um allar búgreinar. Hér er einnig verið að leiðrétta það að ekki verði tvískattað, bæði á grunnframleiðsluna og eins á vinnslu afurðanna og að sama regla gildi hjá öllum búgreinum.

Þegar þetta er skoðað aðeins betur kemur í ljós í 1. gr. sem segir: ,,Annist framleiðandi sjálfur vinnslu og/eða sölu afurða sinna, eða annar aðili í hans nafni, er framleiðanda heimilt að draga frá stofni til búnaðargjalds kostnað/virðisauka af þeirri starfsemi samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra.`` Það á við nokkrar greinar og þá sérstaklega garðyrkjuna en gæti eins verið í hænsnarækt og loðdýrarækt.

Það er kannski ekki mikið um frv. að segja annað en að hér er um leiðréttingar að ræða og verið er að gæta að búvörugjaldið fari til viðkomandi búnaðarsambands þar sem framleiðslan er, en með breyttum búskaparháttum hefur borið á því að einstakir framleiðendur, ég nefni þá hæsnarækt og svínarækt, að sami bóndi eða framleiðandi sé með starfsstöðvar á fleiri en einu búnaðarsambandssvæði. Hér er verið að tryggja að greiðslur þessa gjalds renni til viðkomandi búnaðarsambands þannig að tryggt sé að það hafi réttmætar tekjur en ekki eins og er í dag að nú geti lögheimili viðkomandi framleiðanda verið á einum stað, hjá einu búnaðarsambandi, en hann verið svo með framleiðslu á nokkrum stöðum sem eru innan mismunandi búnaðarsambanda og þau fá þá í dag ekkert gjald. Verið er að samræma gjaldið, að fyrirframgreiðslan verði sú sama og skatthlutfall búnaðargjaldsins.

Við förum svo vel yfir frv. í hv. landbn. og berum saman mismunandi framleiðslugreinar, eins og garðyrkjuna sem hefur tekið á sig hærra greiðsluhlutfall en aðrir, og kynnum okkur þetta vel þannig að um leiðréttingar verði að ræða og ekki þurfi að koma að breytingum í bráð á þessum lögum.