Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:38:20 (6073)

2002-03-12 17:38:20# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held alla vega að til bóta væri að menn áttuðu sig á því hvernig þessi mál standa og í hvaða samhengi þetta frv. er við ályktun búnaðarþings og hvort menn ætli að taka hana upp í tengslum við þetta mál eða ekki.

Ég er ekki að mæla með því eða hvetja til að menn flýti sér um of og fari fram úr sjálfum sér. Ég tel t.d. óhjákvæmilegt að áður en farið sé út í þessa breytingu verði upplýsinga aflað frá Lánasjóði landbúnaðarins um hvaða áhrif þessi breyting hefði á hin eiginlegu vaxtakjör. Það þyrfti væntanlega að fá þaðan gögn um það mál, þ.e. hversu mikil vaxtahækkun skylli á bændum um leið og tekjur Lánasjóðsins til vaxtaniðurgreiðslna minnka, um þessar 100 millj. eða hvað það nú væri sem þessi lækkun gjaldsins úr 2,65% niður í 2% leiddi af sér.

Ég held að við komumst ekki lengra með þetta að sinni á þessu stigi málsins en hingað er komið, en málið verði þá skoðað í hv. landbn.